Erlent

Lóguðu þremur ágengum björnum þar sem árásum hefur fjölgað

Samúel Karl Ólason skrifar
Birna í búri í Misato í Japan. Björninn var felldur þar sem talið var að ekki væri öruggt að sleppa honum aftur út í náttúruna.
Birna í búri í Misato í Japan. Björninn var felldur þar sem talið var að ekki væri öruggt að sleppa honum aftur út í náttúruna. AP/Kyodo News

Lóga þurfti þremur ágengum björnum sem höfðu komið sér fyrir inn í tatami-mottuverksmiðju í norðanverðu Japan. Bjarnaárásum hefur fjölgað mjög á svæðinu og hafa embættismenn kallað eftir breytingum á reglum svo hægt sé að berjast gegn björnum.

Umræddir birnir, ein birna og tveir húnar, komu sér fyrir í verksmiðjunni í bænum Misato á miðvikudagsmorgun og náðust þau ekki fyrr en aðfaranótt fimmtudags. AP fréttaveitan hefur eftir eiganda verksmiðjunnar að hann hafi séð birnina þar nærri en hafi ekki grunað að þeir gætu leitað inn.

Embættismenn og lögregluþjónar, vopnaðir hjálmum og skjöldum, fóru á vettvang og vöktuðu verksmiðjuna, meðan veiðimenn af svæðinu notuðu hvelletur til að reyna að hræða birnina út. Það tókst þó ekki.

Að endingu var búrum komið fyrir við dyr verksmiðjunnar og var fylgst með þeim yfir nóttina. Um morguninn voru allir birnirnir þrír komnir í búr. Birnan í einu og húnarnir í öðru. Þeir voru fluttir á brott en var svo lógað þar sem talið var að ekki væri öruggt að sleppa þeim aftur út í náttúruna.

Á þessu ári hafa þrjátíu bjarnaárásir verið tilkynntar í Akita-héraði í Japan. Sérfræðingar segja birni leita til byggða eftir mat vegna skorti á akornum, sem er meginfæða þeirra.

Íbúar í Akita hafa verið varaðir við því að geyma sorp út og göngufólki hefur verið sagt að bera bjöllur, svo þau komi björnum ekki á óvart út í náttúrunni og bera bjarnarúða. Þá er fólki ráðlagt að leggjast á grúfu mæti þau birni í náttúrunni.

Ríkisstjóri héraðsins segist ætla að biðja ríkisstjórnina um aðstoð við að reyna að fækka þessum árásum. Meðal annars vill hann að lögum verði breytt svo nota megi byssur ætlaðar til veiða í byggðum bólum. Annars sé ómögulegt að fella birni sem komnir eru inn í bæi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×