Fótbolti

Halda HM í fót­bolta saman en rífast um að fá úr­slita­leikinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Spánn og Marokkó mættust í sextán liða úrslitum á síðasta HM og þar fagnaði Marokkó sigri í vítakeppni.
Spánn og Marokkó mættust í sextán liða úrslitum á síðasta HM og þar fagnaði Marokkó sigri í vítakeppni. Getty/Marvin Ibo Guengoe

Í vikunni var tilkynnt að Spánn, Marokkó og Portúgal muni halda saman heimsmeistaramót karla í fótbolta árið 2030. Þjóðirnar þurfa því að vinna vel saman en strax má lesa fréttir um ósætti þeirra á milli.

Tvær af þjóðunum þremur, Spánn og Marokkó, halda því nefnilega fram að þau verði með úrslitaleikinn í keppninni. Portúgal virðist ekki ætla að blanda sér í það rifrildi.

Miquel Iceta, íþróttamálaráðherra Spánar, sagðist í útvarpsviðtali í gær búast við því að úrslitaleikurinn færi fram á Spáni.

Fouzi Lekjaa, yfirmaður marokkóska fótboltasambandsins, sagði aftur á móti í útvarpsviðtali í heimlandi sínu að það væri markmiðið að halda úrslitaleikinn í Casablanca í Marokkó. ESPN segir frá.

FIFA tilkynnti að hvar HM 2030 færi fram einu ári fyrr en búist var við og kom tilkynningin mörgum á óvart.

Suður-Ameríkuþjóðirnar Argentína, Úrúgvæ og Paragvæ, fá að halda einn opnunarleik hvert til að halda upp á hundrað ára afmæli keppninnar en restin fer fram á Spáni, í Portúgal og í Marokkó.

Það lítur út fyrir að Argentínumenn séu ekki alveg sáttir við sinn hlut því stjórnmálamenn og forráðamenn argentínska sambandsins töluðu um að argentínska sambandið myndi sækjast eftir því að fá fleiri leiki en þennan eina.

Það hafa verið deilur á milli Spánar og Marokkó vegna þess að mikill straumur ólöglegra innflytjanda til Spánar hefur verið í gegnum Marokkó.

Nú gætu þjóðirnar farið að rífast um að fá að halda stærsta mögulega íþróttakappleik í heimi, sjálfan úrslitaleik HM karla í fótbolta.

Fulltrúar Marokkó, Spánar og Portúgals munu hittast 18. október í Rabat í Marokkó þar sem farið verður yfir mögulega leikjadagskrá mótsins. Staðsetning úrslitaleiksins mun væntanlega skýrast eftir þau fundahöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×