Innlent

Hug­myndir dóms­mála­ráð­herra útópískar

Bjarki Sigurðsson skrifar
Guðmundur Ingi Guðbrandsson er félags- og vinnumarkaðsráðherra.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson er félags- og vinnumarkaðsráðherra. Vísir/Vilhelm

Félagsmálaráðherra segir hugmyndir dómsmálaráðherra um lokuð búsetuúrræði vera útópískar. Hann telur að samningur hans við Rauða krossinn um neyðarskýli fyrir útlendinga sem hafa fengið synjun um alþjóðlega vernd sé rétt skref. 

Á þriðjudaginn kynnti Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, það að hann hafi samið við Rauða krossinn um að útlendingar sem hafa fengið endanlega synjun um alþjóðlega vernd á Íslandi og eiga ekki lengur rétt á aðstoð, geti fengið gistingu og fæði í neyðarskýli. Neyðarskýlið verður staðsett í Borgartúni og opnar í dag.

Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra sagði svo í samtali við fréttastofu í gær að henni þætti það ekki góð lausn að setja upp þessi neyðarskýli. Eina varanlega lausnin væri lokað búsetuúrræði. Guðmundur er þó ekki sammála Guðrúnu.

„Dómsmálaráðherra hefur talað um að hún telji skynsamlegra að koma með lokuð búsetuúrræði en þau eru algjör útópía á þessum tímapunkti því það er engin stoð fyrir þeim í lögum. Við verðum núna að koma með tillögur til þess að tryggja það að fólk sem hefur misst þjónustu ríkislögreglustjóra þurfi ekki að sofa á götunni. Umræða um lokuð búsetuúrræði mun ekki leysa þann vanda sem við stöndum frammi fyrir núna,“ segir Guðmundur Ingi.

Hann segist alveg viss um að neyðarskýlin séu skref í rétta átt. Með þeim sé verið að veita fólkinu þá lágmarksaðstoð sem það á rétt á.,

„Það býr líka til mikilvæga leið fyrri sveitarfélögin til að geta vísað fólki í þetta úrræði sem annars er ekki til þar. Ég er mjög sáttur við þessa lausn og ég treysti Rauða krossinum til að sinna þessu,“ segir Guðmundur.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×