Innlent

Samið um neyðar­að­stoð við fólk sem hefur fengið endan­lega synjun um vernd

Atli Ísleifsson skrifar
Guðmundur Ingi Guðbrandsson félagsmálaráðherra hefur gert breytingar á reglum um endurgreiðslur til sveitarfélaga vegna þjónustu við umrædda einstaklinga.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson félagsmálaráðherra hefur gert breytingar á reglum um endurgreiðslur til sveitarfélaga vegna þjónustu við umrædda einstaklinga. Vísir/Vilhelm

Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið hefur gert samkomulag við Rauða krossinn á Íslandi um tímabundið verkefni sem felur í sér neyðaraðstoð við útlendinga sem fengið hafa endanlega synjun á umsókn sinni um alþjóðlega vernd hér á landi og eiga ekki rétt á aðstoð á grundvelli laga um útlendinga.

Frá þessu segir á vef félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins. Þar segir jafnframt að ráðuneytið hafi gert breytingar á reglum um endurgreiðslur til sveitarfélaga vegna áðurnefndra einstaklinga. Með breytingunum sé skýrt hvað komi til endurgreiðslu úr ríkissjóði vegna aðstoðar sveitarfélaga við fólkið.

„Ráðherra hefur sent tilmæli til félagsþjónustu sveitarfélaganna vegna breytinganna. Samband íslenskra sveitarfélaga hefur sömuleiðis verið upplýst.

Rauði krossinn veitir neyðaraðstoð

Þar sem óvíst er hvort dvalarsveitarfélag í hverju tilviki fyrir sig hafi yfir að ráða úrræði til að hýsa umrædda einstaklinga, sem ekki eiga í önnur hús að venda, hefur félags- og vinnumarkaðsráðuneytið sem fyrr segir komist að samkomulagi við Rauða krossinn um tímabundið verkefni sem felur í sér að umræddir einstaklingar geti fengið gistingu og fæði í samræmi við það sem almennt tíðkast í gistiskýlum fyrir heimilislaust fólk.

Skýrt hvað kemur til endurgreiðslu

Reglurnar sem ráðuneytið hefur breytt eru nr. 520/2021 og settar á grundvelli 15. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga. Í þeim er kveðið á um aðstoð sveitarfélaga, í sérstökum tilvikum, við erlenda ríkisborgara og endurgreiðslur úr ríkissjóði vegna þeirrar aðstoðar.

Eftir breytingarnar á reglunum er nú skýrt kveðið á um hvað komi til endurgreiðslu úr ríkissjóði vegna aðstoðar sveitarfélaga við umrædda einstaklinga á grundvelli 15. gr. laganna. Með aðstoð er átt við gistingu og fæði í samræmi við það sem almennt tíðkast í úrræðum fyrir heimilislausa hér á landi, svo sem hvað varðar hámarksdvalartíma hvers einstaklings á sólarhring í viðkomandi gistiúrræði sem og fjölda máltíða á sólarhring,“ segir á vef ráðuneytisins.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.