Innlent

Olga Pru­dny­kova nýr Ís­lands­meistari kvenna í skák

Atli Ísleifsson skrifar
Lenku Ptácníková, Olga Prudnykova og Guðlaug Þorsteinsdóttir.
Lenku Ptácníková, Olga Prudnykova og Guðlaug Þorsteinsdóttir. Aðsend

Olga Prudnykova varð í dag Íslandsmeistari kvenna í skák en æsispennandi Íslandsmóti kvenna lauk í húsnæði Skákskóla Íslands í dag.

Fyrir umferðina hafði Olga Prudnykova, sem er úkraínskur flóttamaður búsett hérlendis, hálf vinnings forskot á tvær skákkonur - Lenku Ptácníková, sem er fjórtánfaldur Íslandsmeistari, og Guðlaugu Þorsteinsdóttur, sem er sexfaldur Íslandsmeistari. Guðlaug er jafnframt sú fyrsta í sögunni sem hampaði titlinum en hún vann fyrsta mótið sem haldið var 1975, þá aðeins fimmtán ára gömul.

Olga Prudnykova.Skáksambandið

Í tilkynningu frá Skáksambandinu segir að Olga hafi mætt Lenku í lokaumferðinni og ljóst að sigur myndi tryggja henni titilinn. Jafntefli myndi ávallt duga í aukakeppni – ef Guðlaug ynni Guðrúnu Fanneyju Briem, yngsta keppanda mótsins.

„Svo fór að Olga vann sigur á Lenku í æsilegri skák þar sem Lenka reyndi að tefla til vinnings og féll að lokum á tíma í jafnteflisstöðu. Svo fór að Guðlaug tapaði fyrir Guðrúnu í ekki síður spennandi skák.

Þegar uppi stóð var því sigur Olgu frekar öruggur. Hún hlaut 4½ vinning af 5 mögulegum. Guðlaug og Lenka urðu jafnar í 2.-3. sæti með 3 vinninga. Þar með lauk samfelldri 11 ára sigurgöngu Lenku á mótinu.

Olga er eins og áður sagði úkraínskur flóttamaður. Hún býr á Íslandi ásamt fjölskyldu sinni. Þrátt fyrir að vera ekki íslenskur ríkisborgari er hún Íslandsmeistari í skák þar sem hún hefur rétt til að tefla fyrir Íslands hönd á alþjóðlegum mótum. Hennar frumraun sem íslenskur landsliðsmaður verður á EM landsliða sem fram fer í Svartfjallalandi í nóvember nk. og ljóst að koma hennar styrkir mjög liðið.“ Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.