Innlent

„Þessi ó­­vissa er al­­gjör mar­tröð“

Margrét Björk Jónsdóttir skrifar
31F10A69A1EBC6D2273E1D0A420D4167C392183E46315682C761411809FBF722_713x0

Enn hefur ekkert spurst til Magnúsar Kristins Magnússonar, 36 ára,sem hvarf í Dóminíska Lýðveldinu fyrir tæpum tveimur vikum. Systir hans segir vonina um góðar fréttir minnka með hverjum degi.

Sölvi Rúnar Pétursson, æskuvinur Magnúsar heldur nú að mestu leyti utan um samskipti við lögreglu og hefur yfirsýn yfir leitina. Hann segir ekkert nýtt haldbært að frétta.

„Lögreglan er komin með bankagögnin og eitthvað af farsímagögnum,“ segir Sölvi.

Það er bara verið að vinna í þessu en við fáum kannski ekki að vita allt sem er í gangi á bak við tjöldin.

Þau séu með tengilið hjá lögreglunni sem haldi þeim upplýstum um stöðuna, en enn sem komið er sé óvissan algjör.

Aðspurður um hvort standi til að fjölskyldumeðlimir fari út til Dómíníska Lýðveldisins segir Sölvi að það sé í skoðun.

„ Þetta er erfitt land og erfitt kerfi, ef einhver færi út þyrfti að hafa einhvern local og spænskumælandi með sér. Við höfum ekkert í höndunum. Eins og staðan er núna sitjum við bara við símann.“

Missti af flugi og hvarf í kjölfarið

Magnús fór til Dómíníska Lýðveldisins eftir að hafa verið á ferðalagi á Spáni. Lítið er vitað um til­gang ferðarinnar en þó komst fjölskyldan að því að hann hafi farið í spila­víti og verið að skemmta sér.

Hann missti af flugi sem hann átti bókað til Frankfurt þann 10. september, yfirgaf flugvöllinn og síðan þá er ekkert vitað um ferðir hans. Engin hefur náð sambandi við símann hans og engar hreyfingar verið á samfélagsmiðlum hans eða bankareikningi.

Greint hefur verið frá því að Magnús hafi glímt við andleg veikindi fyrir nokkrum árum sem fjölskyldan óttast að gætu hafa tekið sig upp aftur. 

Vonin minnkar eftir því sem tíminn líður

Rannveig Karlsdóttir, systir Magnúsar segir í samtali við fréttastofu að eftir því sem tíminn líði minnki vonin um góðar fréttir.

„Hausinn á manni fer yfir allar mögulegar útkomur. En þessi óvissa er algjör martröð.“

Hún segist gera sér grein fyrir því að mögulega eigi þau eftir að fá slæmar upplýsingar en þau verði að fá einhver svör til að geta haldið áfram þaðan.

Magnús Kristinn er fæddur 1987, um það bil 1,85 sentímetrar á hæð, grann- og íþróttamannslega vaxinn. Hann er með gráblá augu, dökkhærður, mjög snöggklipptur og með dökka skeggrót.

Hafi fólk upp­lýsingar um ferðir Magnúsar er þeim bent á að hafa sam­band við annað hvort lög­regluna á höfuð­borgar­svæðinu í síma 444-1000 eða við systur hans, Rann­veigu Karls­dóttur, í síma 660-4313.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×