Innlent

Á­kærður fyrir ó­lög­legan vopna­flutning á Akur­eyri

Atli Ísleifsson skrifar
Athæfi mannsins er talið brjóta gegn ákvæðum vopnalaga sem fjalla um geymslu skotvopna og svo meðferð þeirra undir áhrifum áfengis- og vímuefna.
Athæfi mannsins er talið brjóta gegn ákvæðum vopnalaga sem fjalla um geymslu skotvopna og svo meðferð þeirra undir áhrifum áfengis- og vímuefna. Vísir/Vilhelm

Lögregla á Norðurlandi eystra hefur ákært 35 ára karlmann fyrir vopnalagabrot með því að hafa flutt skotvopn með ólöglegum hætti og undir áhrifum áfengis.

Ákæran er birt í Lögbirtingablaðinu en brotið var framið við heimili mannsins á Akureyri aðfararnótt 3. júlí 2021.

Í ákæru segir að maðurinn hafi umrætt sinn verið undir áhrifum áfengis við flutning skotvopna. Hafi hann verið að flytja til skotvopn og skotfæri, án þess að tryggja viðeigandi og áskilda geymslu þeirra í aðskildum og læstum hirslum þar sem óviðkomandi næði ekki til þeirra. Hann hafði þá geymt skotvopnin og skotfærin í töskum undir rúmi á heimili sínu.

Athæfi mannsins er talið brjóta gegn ákvæðum vopnalaga sem fjalla um geymslu skotvopna og svo meðferð þeirra undir áhrifum áfengis- og vímuefna.

Fram kemur að maðurinn sé nú búsettur á ótilgreindu heimilisfangi í Danmörku og sé hann kvaddur til að koma fyrir dóm þann 25. október næstkomandi. Sæki hann ekki þing megi hann búast við því að fjarvistin verði metin til jafns við það að hann viðurkenni að hafa framið brotið sem hann er ákærður fyrir. Verði dómur þá lagður á málið að honum fjarstöddum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×