Innlent

Greinar­gerðin birt á vef Al­þingis og mál for­sætis­nefndar fellt niður

Lovísa Arnardóttir skrifar
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingflokksformaður Pírata, birti greinargerðina í sumar.
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingflokksformaður Pírata, birti greinargerðina í sumar. Vísir/Arnar

Greinargerð setts ríkisendurskoðanda um Lindarhvol var birt í gær á vef Alþingis. Forseti Alþingis neitaði mánuðum saman að birta hana. Þingflokksformaður Pírata gerði það í sumar. Forsætisnefnd hefur því mál tengd greinargerðinni ekki lengur til skoðunar. 

Greinargerð setts ríkisendurskoðanda um Lindarhvol var birt í gær á vef Alþingis. Forseti Alþingis neitaði í marga mánuði að birta greinargerðina en þingmaður Pírata gerði það svo óvænt í sumar. Deilur höfðu þá staðið um birtingu greinargerðarinnar mánuðum saman.

Tvær nefndir Alþingis höfðu haft málið til skoðunar en í ljósi þess að greinargerðin hefur nú verið birt hefur forsætisnefnd fellt málið niður. Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hefur málefni Lindarhvols ehf. hins vegar enn til umfjöllunar á grundvelli skýrslu Ríkisendurskoðunar um Lindarhvol ehf. frá apríl 2020.

Það kemur fram í tilkynningu sem birt var á vef Alþingis í gær.

Þar segir að forsætisnefnd hafi haft til umfjöllunar beiðni fjölmiðlamanna um aðgang að greinargerð setts ríkisendurskoðanda um Lindarhvol ehf. frá júlí 2018 en að málið megi rekja til ákvörðunar nefndarinnar frá 2021 um endurupptöku úrskurðar nefndarinnar. Þá var beiðni blaðamanns á Viðskiptablaðinu um aðgang að greinargerðinni synjað.

„Í ljósi þess að greinargerð setts ríkisendurskoðanda hefur þegar verið birt opinberlega eru brostin skilyrði til þess að forsætisnefnd hafi málið til frekari umfjöllunar. Er málinu því lokið af hálfu forsætisnefnda,“ segir að lokum um það í tilkynningunni.

Málinu er þó að öllum líkindum ekki lokið því það situr á borði héraðssaksóknara eins og stendur. 

Lindarhvoll var félag sem stofnað var til að halda utan eignir sem ríkið leysti til sín við uppgjör við föllnu bankana eftir hrun. Félagið seldi síðan eignirnar. Deilt hefur verið um framkvæmdina og var Sigurður Þórðarson settur ríkisendurskoðandi til að skoða málið vegna vanhæfis þáverandi ríkisendurskoðanda.

Eftir að nýr ríkisendurskoðandi var skipaður tók hann málið yfir en Sigurður skilaði forseta Alþingis greinargerð um hans skoðun á málinu. Birting Þórhildar Sunnu á greinargerðinni var nokkuð umdeild. Forseti Alþingis og formaður forsætisnefndar lögðust gegn því að greinargerðin yrði birt og núverandi ríkisendurskoðandi hefur sömuleiðis verið harðorður og mælt gegn birtingu hennar. 


Tengdar fréttir

Segir greinar­gerð Sigurðar mark­laust plagg

Ríkisendurskoðandi segir greinargerð setts ríkisendurskoðanda í Lindarhvolsmálinu óklárað plagg sem aldrei hefði átt að líta dagsins ljós og sakar hann um dylgjur.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×