Fótbolti

Bonucci ætlar í mál við Juventus

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Leonardo Bonucci ætlar í mál við sitt fyrrum félag.
Leonardo Bonucci ætlar í mál við sitt fyrrum félag. Stefano Guidi/Getty Images

Leonardo Bonucci, fyrrverandi leikmaður Juventus, ætlar í mál við félagið eftir að hann var settur út í kuldann á undirbúningstímabilinu í sumar.

Ítalskir miðlar greina frá því að Bonucci telji að félagið hafi gerst sekt um samningsbrot og því ætli leikmaðurinn að leita réttar síns gagnvart félaginu. Bonucci var látinn æfa einn þar sem hann var ekki lengur hluti af fyrirætlunum Massimiliano Allegri, þjálfara liðsins.

Bonucci telur þar með að Juventus hafi skaðað sig og ímynd sína með því að láta hann ekki æfa við réttar aðstæður og halda honum frá liðinu í nokkrar vikur. 

Ítalski íþróttafréttamaðurinn Gianluca Di Marzio greinir frá því að Bonucci hafi verið látinn æfa á kvöldin og á öðrum tímum en aðrið í liðinu. Hann hafi ekki fengið að hitta starfsteymi liðsins, né að nota alla æfingaaðstöðuna. Það sé brot á samkomulagi félaga við ítölsku leikmannasamtökin og því muni Bonucci leita réttar síns.

Bonucci, sem á að baki yfir 500 leiki fyrir Juventus, ætlar að fara fram á miskabætur frá félaginu. Fari það svo að hann vinni málið mun hann gefa upphæðina til góðgerðafélagsins Neuroland.

Bonucci yfirgaf Juventus á lokadegi félagsskiptagluggans í sumar og gekk í raðir Union Berlin í Þýskalandi. Þessi 36 ára gamli varnarmaður hefur leikið alls 502 leiki fyrir Juventus í öllum keppnum og á að baki 121 leik fyrir ítalska landsliðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×