Innlent

Um­sækj­endum um vernd ekið fyrir 225 milljónir á ári

Árni Sæberg skrifar
Guðmundur Ingi Guðbrandsson er félags- og vinnumarkaðsráðherra.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson er félags- og vinnumarkaðsráðherra. Vísir/Vilhelm

Aksturskostnaður Vinnumálastofnunar vegna umsækjenda um alþjóðlega vernd nam rúmum 225 milljónum króna á tímabilinu júlí árið 2022 til júní árið 2023.

Þetta kemur fram í svari Guðmundar Inga Guðbrandssonar, félags- og vinnumarkaðsráðherra, við fyrirspurn Bergþórs Ólasonar, þingflokksformanns Miðflokksins um kostnað Vinnumálastofnunar vegna umsækjenda um alþjóðlega vernd.

Þar segir að þjónusta við umsækjendur um alþjóðlega vernd hafi færst til Vinnumálastofnunar frá Útlendingastofnun í júlí árið 2022. Upplýsingar um kostnað Vinnumálastofnunar vegna umsækjenda um alþjóðlega vernd nái því ekki lengra aftur en til júlí árið 2022, en Bergþór hafði óskað eftir upplýsingum allt aftur til ársins 2020.

Í svarinu segir að kostnaður vegna leigubílaaksturs á tímabilinu hafi verið 96,6 milljónir króna og 128,862 milljónir króna vegna annars aksturs, alls 225,496 milljónir króna.

Kostnaður vegna heilbrigðisþjónustu nánast þrefaldast

Bergþór óskaði eftir upplýsingum um upplýsingar um kostnað Vinnumálastofnunar í tengslum við heilbrigðisþjónustu á tímabilinu júlí 2022 til júní 2023 vegna umsækjenda um alþjóðlega vernd, þar með talið sálfræðiþjónustu, sundurliðað eftir þjónustuflokkum og árum.

Í svari ráðherra segir að á seinni hluta ársins 2022 hafi kostnaðurinn verið 95,375 milljónir króna en á fyrri hluta þessa árs 259,653 milljónir króna. Það gerir hækkun upp á rúmlega 270 prósent milli ára.

Hótelherbergi einstöku sinnum leigð

Þá má einnig sjá sundurliðun á kostnaði vegna húsnæðis fyrir umsækjendur. Í svari ráðherra segir að allur almennur húsnæðiskostnaður hjá Vinnumálastofnun sé vegna leigu á herbergjum. Í þeim tilvikum þegar gistiheimili eru tekin á leigu miðist kostnaður við hvert herbergi. Í einhverjum tilvikum hafa verið leigð herbergi á hótelum til skamms tíma.

Kostnaður vegna húsaleigu á tímabilinu hafi verið 993,478 milljónir króna og 63,656 milljónir króna vegna leigu hótelherbergja.

Þá segir að samkvæmt upplýsingum frá Vinnumálastofnun sé þörf fyrir viðbótarbúsetuúrræði fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd metin reglulega og spá þess efnis uppfærð eftir því sem þörf er á. 

Í töflu sem sýnir áætlaða viðbótarþörf segir að þann 1. janúar á næsta ári muni þurfa á bilinu 900 til 2.700 rými til viðbótar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×