Fótbolti

„Tími til kominn að njóta lífsins og fá sér nokkra bjóra“

Smári Jökull Jónsson skrifar
Hazard vill fara að njóta lífsins.
Hazard vill fara að njóta lífsins. Vísir/Getty

Eden Hazard virðist vera að íhuga að leggja knattspyrnuskóna á hilluna. Hazard er félagslaus sem stendur og í heimildamynd um belgíska landsliðið er hann greinilega farinn að hugsa um framtíðina án fótboltans.

Eden Hazard var einn af bestu leikmönnum ensku úrvalsdeildarinnar til fjölda ára og hrellti varnarmenn andstæðinganna reglulega þegar hann lék með Chelsea. Hann vann enska meistaratitilinn í tvígang með félaginu en hann hafði þar áður orðið franskur meistari með Lille.

Árið 2019 gekk hann til liðs við spænsku risana Real Madrid en þar skein frægðarsól hans aldrei. Hann var sífellt í meiðslavandræðum, var í vandræðum að koma sér í almennilegt form og lék aðeins rúmlega 50 leiki fyrir Real á þeim fjórum tímabilum sem hann tilheyrði félaginu.

Hazard, sem er 32 ára gamall, varð samningslaus í sumar og hefur enn ekki samið við nýtt félag. 

Í nýrri heimildamynd um belgíska landsliðið er viðtal við Hazard og þar kemur fram að hann sé farinn að íhuga að leggja knattspyrnuskóna á hilluna.

„Smám saman er kominn tími til að njóta lífsins með fjölskyldu minni og vinum, drekka nokkra Jupiler bjóra,“ segir Hazard sem leikið hefur 126 leiki fyrir belgíska landsliðið og skorað í þeim 33 mörk. Hann lagði landsliðsskóna á hilluna eftir að Belgía féll úr keppni á heimsmeistaramótinu í Katar á síðasta ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×