Innlent

Ungbarn á skemmtistað í Grafarvogi

Jón Þór Stefánsson skrifar
Tilkynnt um aðila með ungabarn á skemmtistað í Grafarvogi. Myndin er úr safni.
Tilkynnt um aðila með ungabarn á skemmtistað í Grafarvogi. Myndin er úr safni. Vísir/Vilhelm

Lögregla fékk í gærkvöldi tilkynningu um einstakling með ungbarn á skemmtistað í Grafarvogi. Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, en þar er ekki greint frá frekari viðbrögðum lögreglu við málinu.

Í dagbókinni er greint frá því að aðili í veitingahúsi í miðbænum hafi neitað að borga fyrir þá þjónustu sem hann hafði fengið á staðnum og neitaði líka að yfirgefa staðinn. Annar aðili var til vandræða á veitingahúsi í miðbænum. Hann gekk milli borða og gæddi sér á afgöngum. Sá aðili var farinn þegar lögreglu bar að garði.

Í Múlahverfinu var lögreglu greint frá innbroti í íbúðarhús. Fram kemur að sá sem braust inn hafi komið sér í anddyri hússins og síðan gengið út. Hann hafi skorið sig illa er braut rúðu og skreið í gegnum hana og var fluttur á slysadeild til aðhlynningar.

Þá var tilkynnt um árásargjarna konu á skemmtistað í miðbænum. Ekki er greint frá því hvernig lögreglan tók á því máli.

Í Kópavogi var tilkynnt um ógnandi mann á hóteli. Hann hafi verið ölvaður að reyna að taka bjór úr ísskáp starfsmanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×