Fótbolti

Andri Lucas skoraði fyrir Lyngby en toppliðið stal stigi

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Andri Lucas fagnar marki sínu í dag.
Andri Lucas fagnar marki sínu í dag. Lyngby

Andri Lucas Guðjohnsen skoraði eina markÍslendingaliðs Lyngby er liðið gerði 1-1 jafntefli gegn toppliði Nordsjælland í dönsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag.

Þeir Andri Lucas, Kolbeinn Finnsson og Sævar Atli Magnússon voru allir í byrjunarliðinu hjá Frey Alexanderssyni í dag, en Gylfi Þór Sigurðsson var ekki í hóp.

Andri Lucas kom heimamönnum yfir eftir hálftíma leik áður en hann var tekinn af velli þegar um tuttugu mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma.

Lengst af leit út fyrir að það yrði eina mark leiksins, en Kian Hansen jafnaði metin fyrir gestina á sjöundu mínútu uppbótartíma og niðurstaðan varð því 1-1 jafntefli.

Lyngby er nú með átta stig í áttunda sæti eftir sjö leiki, átta stigum á eftir Nordsjælland sem enn trónir á toppnum.

Þá kom Stefán Teitur Þórðarson inn á sem varamaður fyrir Silkeborg er liðið vann 1-0 sigur gegn Hvidovre.

Silkeborg situr í þriðja sæti deildarinnar með 13 stig, en Hvidovre vermir botnsætið með aðeins tvö stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×