Fótbolti

Sverrir Ingi dregur sig úr landsliðshópi Íslands

Aron Guðmundsson skrifar
Sverrir Ingi í leik með íslenska landsliðinu.
Sverrir Ingi í leik með íslenska landsliðinu. Vísir/Vilhelm

Íslenski landsliðsmaðurinn Sverrir Ingi Ingason hefur þurft að draga sig úr landsliðshópi íslenska karlalandsliðsins í fótbolta fyrir komandi verkefni liðsins í undankeppni EM 2024 vegna meiðsla.

Frá þessu er greint í tilkynningu KSÍ þar sem segir enn fremur að Guðmundur Þórarinsson hafi verið kallaður inn í hópinn í stað Sverris. Guðmundur, sem leikur með OFI Crete FC, á að baki 12 A-landsleiki.

Ísland mætir Lúxemborg í Lúxemborg 8. september og Bosníu á Laugardalsvelli þremur dögum seinna. Íslendingar eru með þrjú stig í J-riðli undankeppninnar.

Einn nýliði er í íslenska hópnum, Orri Steinn Óskarsson, nítján ára framherji FC Kaupmannahafnar. Hann hefur skorað 21 mark í 33 leikjum fyrir yngri landslið Íslands.

Landsliðsfyrirliðinn Aron Einar Gunnarsson er ekki í hópnum. Hann hefur ekkert spilað með Al Arabi undanfarnar vikur. Birkir Bjarnason, Arnór Sigurðsson og Albert Guðmundsson eru heldur ekki með.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×