Fótbolti

Varamaðurinn Nökkvi tryggði St. Louis nauman sigur

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Nökkvi Þeyr Þórisson tryggði St. Louis City stigin þrjú í nótt.
Nökkvi Þeyr Þórisson tryggði St. Louis City stigin þrjú í nótt. Vísir/Hulda Margrét

Nökkvi Þeyr Þórisson skoraði annað mark St. Louis City er liðið vann nauman 2-1 sigur gegn tíu leikmönnum FC Dallas í bandarísku MLS-deildinni í knattspyrnu í nótt.

Gestirnir frá Dallas þurftu að leika stærstan hluta leiksins manni færri eftir að hollenski markvörðurinn Maarten Paes lét reka sig f velli með beint rautt spjald strax á 12. mínútu leiksins.

Þrátt fyrir það leit fyrsta mark leiksins ekki dagsins ljós fyrr en á 82. mínútu þegar Anthony Markanich kom St. Louis í forystu áður en Nökkvi Þeyr tvöfaldaði forystuna þremur mínútum síðar. Nökkvi og Markanich höfðu báðir komið inn á sem varamenn í hálfleik.

Eugene Ansah minnkaði þó muninn fyrir gestina í uppbótartíma, en nær komust þeir ekki og niðurstaðan varð 2-1 sigur St. Louis sem enn trónir á toppi Vesturdeildarinnar með 47 stig eftir 26 leiki, 14 stigum meira en FC Dallas sem situr í níunda sæti.

Þá lék Dagur Dan Þóhallsson allan leikinn í 1-1 jafntefli Orlando City gegn Charlotte. Dagur og félagar sitja í þriðja sæti Austurdeildarinnar með 44 stig, en Charlotte situr í ellefta sæti með 30 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×