Fótbolti

Al­freð og Guð­laugur Victor byrjuðu í sigur­leik

Smári Jökull Jónsson skrifar
Alfreð gekk til liðs við Eupen frá Lyngby á dögunum.
Alfreð gekk til liðs við Eupen frá Lyngby á dögunum. Vísir/Getty

Alfreð Finnbogason og Guðlaugur Victor Pálsson voru báðir í byrjunarliði Eupen sem vann sigur í sannkölluðum Íslendingaslag í Belgíu í dag.

Alfreð Finnbogason gekk á dögunum til liðs við Eupen í Belgíu en hann hóf atvinnumannaferil sinn þar í landi árið 2011 þegar hann var á mála hjá Lokeren en leikurinn var annar leikur hans fyrir Eupen.

Alfreð og Guðlaugur Victor voru báðir í byrjunarliði Eupen sem mætti OH Leuven á heimavelli en Jón Dagur Þorsteinsson var í byrjunarliði Leuven.

Gary Magnee kom Eupen yfir í fyrri hálfleiknum og var staðan 1-0 heimamönnum í vil þegar flautað var til leikhlés. Heimaliðið komst í 2-0 snemma í síðari hálfleik en Siebe Schrijvers minnkaði muninn í 2-1 úr víti þá 81. mínútu.

Það voru hins vegar leikmenn Eupen sem tryggðu sigurinn með þriðja marki sínu á 87. mínútu. Lokatölur 3-1 og þriðji sigur Eupen í fyrstu fimm umferðunum staðreynd. Leuven er í þrettánda sæti og á enn eftir að næla í sigur.

Alfreð, Guðlaugur Victor og Jón Dagur voru allir í byrjunarliðum liðanna í dag. Guðlaugur Victor lék allan leikinn í miðri vörn Eupen en þeir Alfreð og Jón Dagur fóru af velli með tveggja mínútna millibili um miðjan síðari hálfleikinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×