Innlent

Héldu eldi í skefjum með garð­slöngu

Árni Sæberg skrifar
Frá slökkvistarfi í morgun.
Frá slökkvistarfi í morgun.

Eldur kviknaði í húsi í Hveragerði í morgun á meðan íbúar þess, fimm manna fjölskylda, voru fjarverandi. Nágrannar brugðust hratt við og notuðu garðslöngu til þess að halda eldinum í skefjum.

Frá þessu greinir Aldís Hafsteinsdóttir, sveitarstjóri Hrunamannahrepps og fyrrverandi bæjarstjóri Hveragerðisbæjar, á Facebook. Það voru systkini hennar Valdimar, Sigurbjörg og Guðrún Hafsteinsbörn ásamt mökum og öðrum nágranna sem vöknuðu við brothljóð og hvelli, ruku út og sáu þá að kviknað var í húsinu.

„Saman brugðust þau öll hárrétt við. Á myndunum má sjá að verið er að reyna að halda eldinum í skefjum með garðslöngu sem sem betur fer var tengd þar til slökkviliðið kom á staðinn. Fimm manna fjölskylda sem býr í þessari íbúð var ekki heima og er það mikil Guðs mildi að ekki fór verr!“ segir Aldís.

Þá segist hún stolt af slökkviliðinu í Hveragerði sem brást við fumlaust og af öryggi sem endranær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×