Fótbolti

Maðurinn sem tryggði Argentínu heims­meistara­titilinn kærður fyrir nauðgun

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Montiel skoraði úr síðustu spyrnu Argentínu í vítaspyrnukeppni gegn Frakklandi í úrslitaleik HM í Katar.
Montiel skoraði úr síðustu spyrnu Argentínu í vítaspyrnukeppni gegn Frakklandi í úrslitaleik HM í Katar. Visionhaus/Getty Images

Gonzalo Montiel, nýjasti leikmaður Nottingham Forest og maðurinn sem tryggði Argentínu heimsmeistaratitilinn í desember síðastliðnum, hefur verið kærður fyrir nauðgun í heimalandi sínu.

The Athletic greinir frá en aðeins eru þrír dagar síðan Montiel gekk í raðir Forest í ensku úrvalsdeildinni á láni frá Sevilla á Spáni. Samkvæmt frétt The Athletic er Montiel kærður fyrir nauðgun sem átti sér stað á heimili hans árið 2019.

Montiel, sem var leikmaður River Plate í Argentínu árið 2019, neitar sök. Hann ræddi við saksóknara frá Buenos Aires í júní á þessu ári vegna málsins.

The Athletic hafði samband við Forest vegna málsins og sagðist félagið hafa verið ánægt eftir samræður við fulltrúa leikmannsins. Forest hefur rætt við lögmann leikmannsins en ekki saksóknara né lögmann meints fórnarlambs.

Samkvæmt skýrslu lögreglunnar í Argentínu segir fórnarlambið að þrír menn hafi nauðgað henni. Tvo þeirra gat hún ekki borið kennsl á en hún gat greint frá Montiel þar sem þau þekktust og höfðu sofið saman áður.

Meint fórnarlamb segist nokkuð viss um að eitthvað hafi verið sett í drykk hennar en hún heim til Montiel þar sem hann átti afmæli og hafði boðið fullt af fólki.

Málið er í vinnslu og stefna saksóknarar á að ræða við fleiri vitni sem voru viðstödd veisluhöldin árið 2019. Gæti farið svo að Montiel þurfi að mæta í skýrslutöku á nýjan leik.

Verði Montiel fundinn sekur gæti hann átt yfir höfði sér fangelsi frá sex mánuðum upp í 20 ár, fer lengd fangelsisvistar meðal annars eftir aldri fórnarlamba og brotaþola, sambandi þeirra og hversu miklu ofbeldi var beitt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×