Innlent

Þurfa ekki að birta andsvör Votta Jehóva

Jón Þór Stefánsson skrifar
Rúv
Rúv Vísir/Vilhelm

Ríkisútvarpið þarf ekki að birta andsvör Votta Jehóva vegna umfjöllunar á miðlum þess um trúarhópinn. Þetta kemur fram í úrskurði fjölmiðlanefndar, en þar segir að andsvörin sem Vottar Jehóva vildu koma á framfæri þóttu of löng. Einnig þóttu þau fela í sér meira en leiðréttingar á staðreyndum málsins, en nefndin bendir á að aðilar eigi ekki rétt á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri að öðru leyti.

Umfjöllun Ríkisútvarpsins var bæði í útvarpsþáttunum Þetta helst og í Kastljósi í janúar á þessu ári. Í þessum þáttum var rætt við sama viðmælanda um upplifun sína af Vottum Jehóva þar sem ofbeldi og trúarinnrætingu var lýst.

Jafnframt var vísað til umfjöllunar Kompás á Stöð 2 frá árinu 2022 þar sem nokkrar konur, fyrrverandi Vottar Jehóva, fjölluðu um atburði sem þær urðu vitni að sem meðlimir trúarhópsins, en þær lýstu meðal annars flengingum á börnum.

Í byrjun mars á þessu ári sendu Vottar Jehóva leiðréttingarkröfu til Ríkisútvarpsins sem var síðan ítrekuð nokkrum dögum síðar. Andsvörin vildu Vottar Jehóva fá birt á vef Ríkisútvarpsins þar sem samtökin höfðu verið sökuð um alvarleg mannréttindabrot, hótanir, kúgun og andlegt og líkamlegt ofbeldi. Þau voru hins vegar ekki birt.

Þá vísuðu Vottar málinu til fjölmiðlanefndar sem óskaði sjónarmiða Ríkisútvarpsins. RÚV benti á lög um fjölmiðla og sögðu andsvör Votta fara yfir tíma- og lengdarmörk sem nauðsynleg þættu til að leiðrétta staðreyndir málsins. Jafnframt fælist í því annað og meira en einföld leiðrétting á staðreyndum.

Fjölmiðlanefnd hafnaði kröfu Votta Jehóva á þeim forsendum sem RÚV gaf upp.

Hægt er að lesa ákvörðun fjölmiðlanefndar hér.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×