Innlent

„Við höfum á­hyggjur af krökkunum“

Margrét Björk Jónsdóttir skrifar
Skúli Jónsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn, hvetur fólk til að fara varlega á morgun en njóta alls sem Menningarnótt býður upp á, dagurinn verði stórkostlegur.
Skúli Jónsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn, hvetur fólk til að fara varlega á morgun en njóta alls sem Menningarnótt býður upp á, dagurinn verði stórkostlegur. Vísir/Arnar

Stærsti dagur ársins hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, Menningarnótt, er handan við hornið. Lögregla hefur áhyggjur af unglingadrykkju og verður með mikið eftirlit til að sporna við slíku. Aðstoðaryfirlögregluþjónn brýnir fyrir gestum að njóta þessa stórkostlega dags og komast heil heim. 

„Þetta er nú eiginlega allt hefðbundið þannig lagað. Þetta er tuttugasta og áttunda hátíðin, þannig að okkar verklag snýst næstum um að skipta um dagsetningu, ár og nöfnin á þeim lögreglumönnum sem mæta,“ segir Skúli Jónsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn, spurður um viðbúnað lögreglu á menningarnótt.

„En fyrir það fyrsta þá er það þessi lokun í miðbænum. Það er engin að fara á neinum ökutækjum inn fyrir lokanir þannig að fólk ætti að vera öruggt í miðbænum,“ segir Skúli. Hann minnir að Strætó verður með skutlþjónustu frá Laugardalnum upp á Skólavörðuholt og hvetur gesti til að nýta sér hana. 

„Svo verður fólk bara að finna stæði, það er nóg af þeim í útjaðrinum öllum, þó það þurfi að labba kílómeter eða tvo, það skemmir ekki neitt. Eða koma á reiðhjólum.“

Tími fjölskyldunnar

Menningarnótt er stærsti dagur ársins hjá lögreglunni en Skúli segir að það verði nóg af lögregluþjónum í miðbænum á morgun til taks. 

„Við höfum áhyggjur af krökkunum. Það er alltaf þessi tími núna frá grunnskóla og yfir í menntaskóla, þar sem þau einhvernvegin sleppa sér.“

Skúli minnir á að útivistarreglur gildi á morgun líkt og aðra daga. 

„Og mín skilaboð til krakkanna eru að þau að það sé nægur tími í framtíðinni til að huga að þessum hlutum, ekki skemma það núna.“

 Menningarnótt er tími fjölskyldunnar, verum saman, gleðjumst og komum heil heim.

Aðspurður um skilaboð til höfuðborgarbúa og gesta hvetur Skúli fólk til að fara varlega en njóta alls sem menningarnótt bjóði upp á, dagurinn verði stórkostlegur.

„Það eru náttúrulega tugir þúsunda hérna í miðbænum um kvöldið þegar þetta nær hápunkti. En það er aldrei vandamál að manna vaktir á menningarnótt og við erum klár í slaginn.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×