Fótbolti

Spánardrottning mætir á úrslitaleikinn en breska konungsfjölskyldan situr heima

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Letizia Spánardrottning lætur sig ekki vanta á úrslitaleikinn á sunnudaginn en Vilhjálmur Bretaprins ætlar að horfa heima.
Letizia Spánardrottning lætur sig ekki vanta á úrslitaleikinn á sunnudaginn en Vilhjálmur Bretaprins ætlar að horfa heima. Vísir/Getty

Letizia Spánardrottning ætlar ekki að missa af fyrsta úrslitaleik spænska kvennalandsliðsins á HM frá upphafi þegar liðið mætir Englendingum í Ástralíu á sunnudaginn.

Spænska knattspyrnusambandið greindi frá því að Letizia Spánardrottning og 16 ára dóttir hennar, Sofía, munu ferðast tæplega sextán þúsund kílómetra frá Spáni til Ástralíu til að vera viðstaddar á leiknum. Filippus Spánarkonungur er hins vegar upptekinn við opinber störf og kemst því ekki með á leikinn.

Hins vegar mun enginn úr bresku konungsfjölskyldunni ferðast þessa löngu vegalengd til að fylgjast með ensku stelpunum í sínum fyrsta úrslitaleik á HM frá upphafi.

Vilhjálmur Bretaprins, sem einnig er forseti enska knattspyrnusambandsins, segist ætla að styðja stelpurnar í gegnum sjónvarpið í Kensington-höll.

Talið er að prinsinn hafi tekið þá ákvörðun til að komast hjá því að fljúga þessa löngu vegalengd fyrir stutt stopp í Ástralíu, enda hafi hann gert það að forgangsatriði sínu að berjast gegn loftslagsvánni og því hafi hann áhyggjur af áhrifunum sem slík ferð myndi hafa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×