Innlent

Um­ferð á hring­veginum aldrei verið meiri

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Aldrei hefur mælst jafnmikil umferð í nokkrum mánuði og í júlímánuði síðastliðnum. Sennilega spilar mikill ferðamannafjöldi þar inn í.
Aldrei hefur mælst jafnmikil umferð í nokkrum mánuði og í júlímánuði síðastliðnum. Sennilega spilar mikill ferðamannafjöldi þar inn í. Vísir/Vilhelm

Aldrei hefur mælst meiri umferð á hringveginum í einum mánuði og í júlí síðastliðnum. Samkvæmt Vegagerðinni stefnir í að umferðin í ár verði um sjö prósentum meiri en árið 2022 og slái öll umferðamet.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu á vef Vegagerðarinnar.

Þar segir að umferðin í júlímánuði hafi verið um sjö prósentum meiri en í sama mánuði árið 2022. Sú aukning varð til þess að aldrei hefur mælst meiri umferð í júlí. Ekki nóg með það heldur er þetta mesta umferð sem hefur mælst í einum mánuði frá því mælingar hófust.

Hér má sjá hlutfallslegan mun á umferðinni frá árinu í ár og síðasta ári.Vegagerðin

Umferðin á hringveginum er mæld með sextán lykilteljurum sem dreifast um höfuðborgarsvæðið, Suðurland, Norðurland, Austurland og Vesturland. Í tilkynningunni segir að tæplega 125 þúsund ökutæki hafi farið yfir mælisniðin sextán á hverjum sólarhring.

Þá segir einnig að „svo óvanalega vildi til að mesta aukningin mældist á og við höfuðborgarsvæðið, en á því svæði mælist alla jafna litlar sveiflur.“ Skýringin á þessu kunni að vera sú að á síðasta ári var óvenju lítil umferð á höfuðborgarsvæðinu miðað við árstíma.

Hins vegar hafi umferðin um Norður- og Austurland dregist saman miðað við sama mánuð á síðasta ári, eða um 1,9 prósent og 4,5 prósent. Á þessum svæðum mældist einnig samdráttur í umferð á síðasta ári samanborið við árið 2021.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×