Fótbolti

Foreldrar stelpunnar þakklátir

Sindri Sverrisson skrifar
Leikmaður Álftaness fór í hjartastopp á heimavelli Fjölnis í Grafarvogi í gærkvöld og eru foreldrar stelpunnar þakklátar viðbragðsaðilum og Fjölni.
Leikmaður Álftaness fór í hjartastopp á heimavelli Fjölnis í Grafarvogi í gærkvöld og eru foreldrar stelpunnar þakklátar viðbragðsaðilum og Fjölni. nordicstadiums.com

Foreldrar stelpunnar sem fór í hjartastopp í leik Álftaness og Fjölnis í 2. deild kvenna í fótbolta í gærkvöld hafa óskað eftir að koma á framfæri þökkum til viðbragðsaðila, Fjölnis og annara sem sýndu stuðning.

Þetta kemur fram í frétt á vef knattspyrnusambands Íslands í dag þar sem KSÍ sendir leikmanninum og fjölskyldu hans jafnframt hlýjar kveðjur, og heilbrigðisstarfsfólki og öðrum sem hlúðu að leikmanninum er þakkað fyrir.

Ljóst er að skjót viðbrögð viðstaddra skiptu sköpum þegar ungur leikmaður Álftaness fór í hjartastopp í leiknum við Fjölni í gær.

Axel Örn Sæmundsson, þjálfari Álftaness, sagði við Vísi í gærkvöld að fréttir af leikmanninum væru góðar miðað við aðstæður. Hún var þá komin með fulla meðvitund og góðan hjartslátt.

Axel sagði tvo lækna sem horfðu á leikinn hafa brugðist hratt og örugglega við.

„Það var foreldri í stúkunni hjá okkur sem er læknir sem hljóp beint inn á og var kominn mjög snemma ofan í atvikið. Þegar hann kemur þá var hann og sjúkraþjálfari Fjölnis, og síðan annar læknir úr stúkunni sem ég veit ekki hver er, mættir ofan í atvikið og þá bara fer ég og ákveð að vera ekkert að þyrma meira yfir þessu og fór að hugsa um alla hina leikmennina sem voru inni á vellinum í sjokki,“ sagði Axel.

Leikur Fjölnis og Álftaness var flautaður af vegna atviksins og frestað um óákveðinn tíma. Næsti leikur Álftaness er gegn Völsungi á Húsavík 26. ágúst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×