Innlent

Jarðgöng þurfi til að leysa út verðmæti á landsbyggðinni

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Villhjálmur Árnason þingmaður og ritari Sjálfstæðisflokksins.
Villhjálmur Árnason þingmaður og ritari Sjálfstæðisflokksins. vísir/vilhelm

Þingmaður Sjálfstæðisflokksins segir mikil verðmæti glatast á landsbyggðinni vegna óviðunandi samgangna. Verðmætin séu það sem skipti máli við jarðgangagerð en ekki kostnaður á hvern íbúa. 

Í gær var fjallað um umsögn vestfirska fyrirtækisins Kerecis við samgönguáætlun innviðaráðherra næstu fimmtán ára. Í umsögninni segir að Vestfirðir séu áfram jaðarsettir á landinu í áætluninni og kallað eftir fimm jarðgöngum sem hluti af svokallaðri vestfjarðalínu. 

Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður samgöngunefndar Alþingis ræddi þörf jarðgangagerð og samgöngumál á landsbyggðinni í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni í dag.

„Það er mikil eftirspurn í öllum landshlutum. Samgöngur eru eitt stærsta grunnþjónustumálið. Í umræðunni er oft fjallað um kostnaðinn og hvað það búa margir á hverju svæði, kostnað á hvern íbúa og annað slíkt. Ég held að við eigum að horfa til þess að þetta er forsenda uppbyggingar á atvinnulífi,“ segir Vilhjálmur.

Glötuð verðmæti

„Þetta myndi auka hagvöxt fyrirtækja. Á meðan við erum ekki að gera þessi göng og aðrar samgöngubætur eru alveg ótrúlega mikil verðmæti óútleyst, á öllum þessum landshlutum hringinn í kringum landið, þar sem að verðmætin verða til,“ segir Vilhjálmur sem nefnir í því sambandi landbúnað, sjávarútveg, nýsköpun, ál- og kísilframleiðslu. 

„Þetta eru útflutningsverðmæti íslenskrar þjóðar. Ég held að það séu enn þá mikið af slíkum verðmætum óútleyst sem við getum leyst út með aukinni jarðgangagerð.“

Hann segir þróun hafa átt sér stað í tækni til að bora göng. Þekkingin sömuleiðis.

„Við sjáum að umferðin er alltaf meiri en búist var við í gegnum þessi mannvirki. Þau verða hagkvæmari en hagkvæmisútreikningar sögðu til áður.“

Vilhjálmur telur því að fleiri fyrirtæki líkt og Kerecis á Vestfjörðum myndu spretta upp, með betri samgöngum. 

„Ég held að við þurfum að horfa á þetta út frá því hvaða verðmæti við erum mögulega að glata, ef fyrirtæki treysta sér ekki til að starfa á þessum svæðum þar sem ekki er hægt að treysta á samgöngur. En ekki bara að horfa á þetta út frá íbúafjölda og kostnað per íbúa,“ segir Vilhjálmur. Hlusta má á viðtalið við hann í heild sinni í spilaranum að ofan. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×