Innlent

„Verðum á­fram það sveitar­fé­lag sem er hag­stæðast fyrir fjöl­skyldu­fólk“

Helena Rós Sturludóttir skrifar
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir stöðu leikskólamála í borginni betri en í flestum öðrum sveitarfélögum.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir stöðu leikskólamála í borginni betri en í flestum öðrum sveitarfélögum. Vísir/Vilhelm

Staðan í leikskólamálum borgarinnar er betri en í flestum öðrum sveitarfélögum að sögn borgarstjóra, þrátt fyrir að hann telji stöðuna verða svipaða í ár og undanfarin ár. Reykjavík muni áfram vera hagstæðust fyrir fjölskyldufólk

Leikskólar hefja nú margir starfsemi sína eftir sumarfrí en ekki er ljóst hversu mörg börn bíða innritunar að sögn borgarstjóra. Búið sé að kalla eftir þeim upplýsingum og muni málið skýrast á næstu vikum. Foreldrar hafa löngum kallað eftir aðgerðum vegna þess úrræðaleysis sem hefur verið í leikskólamálum borgarinnar og stóðu þau meðal annars fyrir fjölmörgum mótmælum síðasta vetur vegna stöðunnar. 

Borgarfulltrúi minnihlutans í skóla- og frístundaráði sagði í byrjun ágúst að allt stefndi í enn verra ástand í leikskólamálum en útlit var fyrir fyrr í sumar. Meðalaldur barna sem hæfu leikskólagöngu væri sífellt að hækka og að staðan væri grafalvarleg. Borgarstjóri á ekki von á miklum breytingum í vetur.

„Ég á von á því að staðan verði svipuð í Reykjavík og undanfarin ár en betri en í flestum öðrum sveitarfélögum,“ segir Dagur. „Við verðum áfram það sveitarfélag sem er hagstæðast fyrir fjölskyldufólk eins og Reykjavík hefur verið undanfarin ár.“

Á síðasta ári hafi plássum fjölgað um 600 með því að bæta við nýjum leikskólum. Hins vegar hafi ekki verið hægt að fullnýta öll plássin vegna viðhalds á mörgum stöðum þar sem skólahúsnæði eru komin til ára sinna. Um leið og þeim verkefnum ljúki verði hægt að nýta plássin til fulls.

Ólga hefur verið meðal foreldra leikskólabarna í Kópavogi eftir gríðarlegar gjaldskrárhækkanir. Dagur segir ekkert slíkt í kortunum hjá borginni. Aðspurður hvort það komi til greina að ráðast í sambærilegar aðgerðir og Kópavogsbær hristir Dagur höfuðið. 

„Að hækka gjöldin þannig að þeir sem hafa minnst á milli handanna nýti sér ekki leikskóla? Nei það er ekki okkar stefna og við förum ekki þá leið. Þvert á móti held ég að það sé ofboðslega mikilvægt að koma til móts við barnafjölskyldur í verðbólgu.“


Tengdar fréttir

Aug­ljóst að eitt­hvað sé að þegar veikinda­dagar eru 39 á ári

Bæjarfulltrúi í Kópavogi segir að ef ekkert hefði verið aðhafst varðandi leikskólamál bæjarins hefði þjónusta ekki staðið undir kröfum foreldra. Breytingar á gjaldskrá leiða af sér miklar hækkanir hjá þeim sem ekki hafa tök á því að hafa barnið sitt skemur en sex tíma á dag í leikskóla. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×