Fótbolti

Bróðir Lauren James stoltur af systur sinni: Verður sú besta í heimi í tíu ár

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lauren James fagnar öðru marka sinna í siginum á Kína í gær.
Lauren James fagnar öðru marka sinna í siginum á Kína í gær. Getty/Andy Cheung

Reece James, leikmaður Chelsea og enska landsliðsins, var heldur betur stoltur af litlu systur sinni eftir frábæra frammistöðu hennar í lokaleik enska landsliðsins í riðlakeppni HM í Ástralíu og Nýja Sjálandi.

Lauren James skoraði þrjú glæsileg mörk í leiknum en eitt þeirra var dæmt af. Hún átti einnig þrjár stoðsendingar og kom því með beinum hætti að fimm fyrstu mörkum enska liðsins í 6-1 sigri á Kína.

Reece James var fljótur á Twitter til að lofa systur sína í bak og fyrir.

„Ég trúi því að hún sé besta knattspyrnukona heims í dag og að hún verði það næstu tíu til fimmtán árin án nokkurs vafa,“ skrifaði Reece James.

„Hún er með betri tækni en sumir karlleikmenn í ensku úrvalsdeildinni,“ skrifaði Reece.

Hin 21 árs gamla Lauren James var ekki með enska landsliðinu þegar liðið vann Evrópumótið í fyrra en hún lék sinn fyrsta landsleik í september á síðasta ári.

Enska landsliðið missti sinn besta sóknarmann á EM í fyrra í meiðsli og því er það mikilvægt að fá Lauren James svona sterka inn.

Lauren spilaði með Chelsea síðustu tvö tímabil og vann tvöfalt á báðum tímabilum. Áður lék hún með Manchester United í þrjú ár en hún byrjaði hjá Arsenal.

Lauren tvöfaldaði markaskor sitt fyrir enska landsliðið í þessum sigri á Kína og þrjú af fjórum landsliðsmörkum hennar hafa komið á þessu heimsmeistaramóti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×