Innlent

Prjónar það sem henni er sagt að prjóna

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Margrét Katrín Guttormsdóttir, sem er umsjónarmaður Textíllabsins á Blönduósi.
Margrét Katrín Guttormsdóttir, sem er umsjónarmaður Textíllabsins á Blönduósi. Magnús Hlynur Hreiðarsson

Fullkomnasta prjónavél landsins er á Blönduósi en hún er stafræn, sem þýðir að hún prjónar það sem henni er sagt að gera þegar búið er að vinna prjónaverkefnið í gegnum tölvuforrit. “Þetta er mjög skemmtileg tækni, sem opnar marga möguleika,” segir Margrét Katrín Guttormsdóttir, umsjónarmaður vélarinnar á Blönduósi

Hér erum við að tala um Textíllab á vegum Textílmiðstöðvar Íslands en um er að ræða aðstöðu, sem er búin stafrænum tækjum, sem tengjast textílvinnslu eins og vefnaði, prjóni, þæfingu og útsaumi. Ein vél vekur þó sérstaka athygli en það er fullkomnasta prjónavél landsins þó víða væri leitað.

„Já, það er prjónavél, sem prjónar í rauninni að sjálfum sér. Maður segir henni hvað hún á að gera í gegnum tölvu, þar að segja, maður vinnur allan prjónaðahlutann í gegnum tölvu, tölvuforrit og síðan les prjónavélin það og prjónar eins og maður forritaði hana. Þetta er mjög skemmtileg og alveg nýtt, sem opnar marga möguleika hjá okkur,” segir Margrét Katrín.

En getur vélin prjónað hvað sem er?

„Hún á að geta gert mjög margt en við erum rosalega ný í þessu, við erum rétt að byrja, við byrjum á treflum en síðan á hún alveg að geta farið upp í peysu, þekkingin er að koma hingað til okkar.”

Hér er vélin, fullkomnasta prjónavél landsins staðsett á Blönduósi.Magnús Hlynur Hreiðarsson

En hvað verður þá um allar prjónakonur og prjónakarla landsins, eiga þau bara að hætta og leggjast í dvala?

„Nei, nei, þetta er allt annað en það sem maður getur gert í höndunum, þess vegna er þetta svo spennandi því þetta vinnur með hvort öðru. Þykktin sem maður getur prjónað í þessu er allt önnur en maður getur gert í höndunum til dæmis,” segir Margrét Katrín.

Margrét Katrín segir að mikið af fólki komi í Textílabið til að vinna fjölbreytt og skemmtileg verkefni hvort sem það er vefstólinn eða bara eitthvað allt annað.

„Já, hér erum við með rosalega mörg stafræn tækni, sem snúa að nýsköpun í textíl. Þetta eru allt stafræn tækni, sem vinna í rauninni með hvort öðru. Þetta er æðislegt og mjög skemmtilegt. Það kemur svo mikið af fjölbreyttum hugmyndum og fólki með allskonar verkefni, sem það vill vinna hérna,” segir Margrét Katrín enn fremur.

Heimasíða Textílmiðstöðvar Íslands



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×