Fótbolti

Óvæntur og sögulegur sigur á HM kvenna í morgun

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sarina Bolden fagnar sigurmarki sínu í nótt. Sögulegt mark sem tryggði sögulegan sigur.
Sarina Bolden fagnar sigurmarki sínu í nótt. Sögulegt mark sem tryggði sögulegan sigur. Getty/Catherine Ivill

Heimsmeistarakeppni kvenna í fótbolta hófst með óvæntum sigri Nýsjálendinga og önnur umferð riðlakeppninnar hófst með óvæntu tapi Nýsjálendinga í nótt.

Filippseyjar unnu þá sögulegan 1-0 sigur á Nýja Sjálandi. Þetta er ekki bara fyrsti sigur liðsins á HM heldur var sigurmarkið einnig fyrsta mark Filippseyja í sögu HM kvenna.

Eina mark leiksins skoraði Sarina Bolden eftir 24 mínútna leik. Markið kom eftir fast leikatriði og Bolden skallaði í markið af stuttu færi.

Nýsjálendingar voru í stórsókn mestan hluta leiksins og skoruðu meira að segja eitt mark sem var dæmt af vegna rangstöðu.

Olivia McDaniel átti stórleik i marki Filippseyja og allt liðið fagnaði gríðarlega í leikslok enda höfðu þær komið öllum á óvart með þessari frammistöðu.

Filippseyjar höfðu tapað 2-0 á móti Sviss í fyrsta leik sínum en Nýja Sjáland vann þá mjög óvæntan 1-0 sigur á Noregi. Noregur og Sviss mætast á eftir og það verður mjög fróðlegur leikur eftir þessi úrslit.

Þór/KA leikmennirnir Tahnai Annis og Dominique Randle komu báðar inn á sem varamenn hjá Filippseyjum þegar tuttugu mínútur voru eftir af leiknum.

Í nótt vann Kólumbía 2-0 sigur á Suður Kóreu í lokaleik fyrstu umferðar riðlakeppninnar. Bæði mörkin komu í fyrri hálfleiknum, fyrst skoraði Catalina Usme úr víti og svo bætti Linda Caicedo við öðru marki. Caicedo er aðeins átján ára gömul.

Suður-kóreska knattspyrnukonan Casey Phair setti met í HM þegar hún kom inn á í leiknum en hún er yngsti leikmaður HM frá upphafi. Hún er aðeins 16 ára og 26 daga gömul.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×