Innlent

Bjart­sýnn að slökkvi­starfi við gos­stöðvar ljúki í dag

Lovísa Arnardóttir skrifar
Einar Sveinn Jónsson, slökkviliðsstjóri í Grindavík.
Einar Sveinn Jónsson, slökkviliðsstjóri í Grindavík. Vísir/Arnar

Tekin verður ákvörðun eftir hádegi um opnun við gosstöðvar. Slökkvistarf hófst í morgun og hefur gengið vel. Unnið er að því að slökkva í síðasta kafla gróðurelda. 

Slökkvistarf hefur gengið vel við gosstöðvar og segir Einar Sveinn Jónsson, slökkiliðsstjóri í Grindavík, að þau stefni á að slökkva í síðasta kafla gróðureldanna í dag. Viðbragðsaðilar funda nú eftir hádegi og verður tekin ákvörðun um klukkan eitt um það hvort að svæðið verði opnað fyrir almenningi á ný en lokað hefur verið síðan á fimmtudag.

„Við ætlum í dag að ráðast á síðasta kaflann okkar, sem liggur frá hættusvæðinu við Keili að Vatnsfelli. Það loga ennþá gróðureldar þar þannig markmið dagsins er að klára þann kafla. Það er síðasti stóri gróðureldakaflinn sem við eigum eftir,“ segir Einar og að þau séu bjartsýn á að ná að klára þetta í dag.

Hann segir veðrið gott og aðstæður þannig góðar til slökkvistarfs og að það ætti að hjálpa að vindur sé dottinn niður. Landhelgisgæslan og mannskapur frá slökkviliðum í nágrenni og björgunarsveitinni Þorbirni aðstoðar við slökkvistarfið. 

Hvað varðar hættu á svæðinu segir Einar að það síðasta sem hann gerði í gær hafi verið að meta hana. Blátt mengunarský hafi legið yfir gönguleiðinni og að hann mæli ekki með að ganga við þær aðstæður.

Myndin sýnir stöðuna við Hraunsels – Vatnsfell. Það er reykur frá gróðureldum, sunnan og suðaustan við gosstöðvarnar, sem er að dreifast yfir gönguleiðina.Mynd/Lögreglan á Suðurnesjum

Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, fundar með öðrum viðbragðsaðilum eftir hádegi en var bjartsýnn á að hægt yrði að opna aftur að gosstöðvunum, og þá svokallaða Meradalaleið.


Tengdar fréttir

Eldgosið mallar áfram

Eldgosið við Litla Hrút á Reykjanesi mallar áfram og engar breytingar hafa verið mældar yfir helgina. Náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands segir þó að svæðinu hafi verið lokað alveg í gærkvöldi og því hafi engar nýjar tölur borist. Þá bendir ekkert til þess að dregið hafi úr gasmengun á svæðinu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×