Fótbolti

Van der Sar kominn heim til Hollands en áfram á gjörgæslu

Siggeir Ævarsson skrifar
Van der Sar á vellinum í vor
Van der Sar á vellinum í vor Vísir/Getty

Edwin Van der Sar, fyrrverandi markvörður Manchester United og hollenska landsliðsins, var í gærkvöldi fluttur með sjúkraflugi frá Króatíu heim til Hollands. Hann hefur verið á gjörgæslu síðan 7. júlí vegna blæðinga inn á heila.

Hinn 53 ára gamli Van der Sar var í fríi með fjölskyldu sinni í Króatíu þegar hann veiktist skyndilega og var hann fluttur með með þyrlu í miklum flýti á næsta spítala. Líðan hans hefur verið stöðug og hefur hann nú verið fluttur til Hollands, þar sem hann verður áfram á gjörgæsludeild.

Í yfirlýsingu sem Ajax birtu í morgun fyrir hönd eiginkonu Van der Sar, Annemarie van Kesteren, segir að hann sé ekki í lífshættu og geti tjáð sig, en framundan séu frekari rannsóknir og vonandi geti hann fljótlega einbeitt sér að endurhæfingu.

Van der Sar er af mörgum talinn einn af bestu markvörðum allra tíma. Eftir langan og farsælan feril, þar sem hann vann t.a.m. Meistaradeild Evrópu bæði með Manchester United og Ajax lagði Van der Sar hanskana á hilluna 2011.

Síðan þá hefur hann sinnt ýmsum stjórnunarstörfum fyrir Ajax og var framkvæmdastjóri félagsins síðan 2016. Hann sagði starfi sínu lausu í vor eftir vonbrigðatímabil þar sem liðin endaði í 3. sæti í hollensku deildinni.


Tengdar fréttir

Ekki lengur í lífshættu eftir heilablæðingu

Fyrrum markvörðurinn Edwin Van der Sar liggur enn á gjörgæsludeild eftir heilablæðingu á dögunum. Í yfirlýsingu konu hans segir að hann sé ekki lengur í lífshættu.

Van der Sar á­fram á gjör­gæslu

Knattspyrnugoðsögnin Edwin Van der Sar er áfram á gjörgæslu eftir að hafa verið lagður inn vegna heilablæðingar í gær. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×