Innlent

Gæti verið sakfelld fyrir manndráp af gáleysi

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Steina Árnadóttir við upphaf aðalmeðferðar málsins í maí.
Steina Árnadóttir við upphaf aðalmeðferðar málsins í maí. vísir/vilhelm

Til greina kemur að Steina Árnadóttir, hjúkrunarfræðingurinn sem ákærð er fyrir að hafa valdið dauða sjúklings á geðdeild Landspítalans, verði sakfelld fyrir manndráp af gáleysi fyrir Landsrétti.

Þetta kemur fram í svari Sigríðar Friðjónsdóttur ríkissaksóknara við fyrirspurn Vísis.

Steinu var gefið að sök að svipta konu á sextugsaldri með geðklofa, sem var sjúklingur á geðdeild Landspítalans, lífi með því að þröngva ofan í hana tveimur flöskum af næringardrykk í ágúst árið 2021.

Sigríður saksóknari segir ákæruna sem slíka standa óbreytta en vísar til ákvæðis í lögum um meðferð sakamála, þar sem kveðið er á um að að dómstóll geti sakfellt fyrir önnur refsiákvæði en háttsemi er heimfærð til í ákæru. 

Í 180. gr. laga um meðferð sakamála segir:

  • Hvorki má dæma ákærða fyrir aðra hegðun en þá sem í ákæru greinir né heldur dæma aðrar kröfur á hendur honum. Þó má sakfella ákærða þótt aukaatriði brots, svo sem staður og stund þess, séu ekki skýrt eða rétt greind, enda telji dómari að vörn hafi ekki verið áfátt þess vegna. Dómari getur gefið aðilum færi á að tjá sig um atriði að þessu leyti, ef þurfa þykir. Með sömu skilyrðum er dómara og rétt að dæma eftir öðrum refsiákvæðum en fram koma í ákæru, þó aldrei aðrar kröfur en þar greinir.  Að öðru leyti er dómari óbundinn af kröfum aðila og yfirlýsingum nema þær varði kröfu skv. XXVI. kafla.

Steina var ákærð fyrir stórfellda líkamsárás sem leiðir til dauða. Hún var sýknuð af ákærunni fyrir héraðsdómi þar sem ekki var talið sannað að hún hefði haft ásetning til þess að valda dauða sjúklingsins.

„Ríkissaksóknari áfrýjaði málinu þar sem hann taldi að ákærða hefði verið ranglega sýknuð,“ segir í svari Sigríðar. Áfrýjunarstefna var gefin út í málinu 11. júlí síðastliðinn.


Tengdar fréttir

Hjúkr­un­ar­fræð­ing­ur­inn sýkn­að­ur af ákæru um manndráp

Hjúkrunarfræðingur á Landspítalanum var sýknaður af ákæru um að hafa valdið dauða sjúklings á geðdeild spítalans fyrir tveimur árum í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Konan var sýknuð af öllum kröfum héraðssaksóknara og einkaréttarkröfu aðstandanda þess sem lést var vísað frá dómi.

Sýknu­dómi hjúkrunar­fræðingsins á­frýjað

Sýknudómi Steinu Árnadóttur, hjúkrunarfræðings á Landspítalanum, hefur verið áfrýjað af ríkissaksóknara. Hún var sýknuð af ákæru um að hafa valdið dauða sjúklings á geðdeild spítalans fyrir tveimur árum, þar sem ekki taldist sannað að hún hefði haft ásetning til þess.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×