Innlent

Ólafur Lauf­dal veitinga­maður er látinn

Kristinn Haukur Guðnason skrifar
Ólafur Laufdal, einn þekktasti veitingamaður landsins um áratuga skeið, lést í gær.
Ólafur Laufdal, einn þekktasti veitingamaður landsins um áratuga skeið, lést í gær. Magnús Hlynur

Ólafur Grétar Laufdal Jónsson veitingamaður lést í gær 78 ára að aldri. Þetta staðfestir fjölskylda Ólafs.

Ólafur var einn þekktasti veitingamaður landsins og rak Hótel Grímsborgir við Sogið í Grímsnesi.

Aðeins 12 ára gamall hóf hann störf í veitingabransanum, fyrst á Hótel Borg. Hann lauk svo námi í Hótel- og veitingaskólanum og fór eftir það á Grillið á Hótel Sögu og síðan á farþegaskipið Gullfoss þar sem hann starfaði sem barþjónn.

Ólafur vann á Glaumbæ þar til hann brann árið 1971 en síðan á Óðal, þar sem hann gerðist meðeigandi.

Hollywood og Broadway

Er hann þó þekktastur fyrir næsta skref í ferlinum, það er þegar hann keypti veitingastað í Ármúla sem hét Cesar árið 1978 og breytti nafninu í Hollywood. Varð staðurinn sá vinsælasti á landinu og hefur enn goðsagnakenndan blæ.

Broadway var næsta skref hjá Ólafi en hann var nærri tvöfalt stærri en Hollywood. Ólafur var einnig stórtækur í hótelrekstri. Hann byggði Hótel Ísland í Ármúla og rak Hótel Borg í 13 ár.

Hann hélt Fegurðarsamkeppni Íslands í aldarfjórðung og flutti inn fjölda heimsfrægra tónlistarmanna.

Seinasta verkefnið var að reka Hótel Grímsborgir ásamt eiginkonu sinni Kristínu Ketilsdóttur. Þar hafa verið margir þekktir viðburðir, svo sem ABBA sýningar og tónleikar Jörgen Olsen, Eurovision sigurvegara.


Tengdar fréttir

Ólafur Laufdal byggir tíu lúxus svítur í Grímsborgum

Ólafur Laufdal, veitingamaður í Grímsborgum í Grímsnesi lætur engan bilbug á sér finna þrátt fyrir heimsfaraldur og nánast enga erlenda ferðamenn því hann er að fara að byggja tíu lúxusvítur fyrir 400 milljónir króna.

Ólafur Laufdal með fimm stjörnur: Hátindinum náð

Hótel Grímsborgir í Grímsnes og Grafningshreppi er orðið að fimm stjörnu hóteli. Ólafur Laufdal er eigandi hótelsins. Hann segir að með stjörnunum fimm, sem hátindinum náð.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×