Innlent

Aldrei fleiri greinst með lekanda

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Lekandi getur valdið alvarlegum einkennum en einnig verið einkennalaus.
Lekandi getur valdið alvarlegum einkennum en einnig verið einkennalaus. Getty

Metfjöldi greindra tilfella kynsjúkdómsins lekanda greindust hér á landi í fyrra, eða samtals 159. Tilfellum lekanda hefur farið farið fjölgandi síðustu ár en fækkaði þó í heimsfaraldri Covid-19 og voru 96 árið 2020.

Frá þessu er greint í Farsóttafréttum embættis landlæknis.

Af þeim 159 tilfellum sem greindust í fyrra greindust 70 prósent hjá körlum og 30 prósent hjá konum. Kynjahlutfallið hefur sveiflast milli ára. Undanfarin fimm ár hafa flestir greindra verið í aldurshópnum 25 til 34 ára, nema árið 2020 þegar flestir voru á aldrinum 15 til 24 ára.

„Fjölgun tilfella lekanda á árinu 2022 hefur einnig sést í öðrum löndum Evrópu. Í Noregi varð aukning tilfella hjá gagnkynhneigðu yngra fólki. Sérstakar áhyggjur eru þar í landi af aukningu lekandasmita hjá ungum konum þar sem lekandi getur valdið svæsnum sýkingum og ófrjósemi hjá konum. Ekki hafa komið fram ákveðnar skýringar á þessari aukningu en ein af hugsanlegum skýringum sem sóttvarnarstofnun Noregs (Folkehelseinstituttet) hefur sett fram á þessari fjölgun lekandasmita er opnun samfélagsins á ný eftir COVID-19 heimsfaraldurinn,“ segir í Farsóttafréttum. 

Þá segir að vaxandi áhyggjur séu af sýklalyfjaónæmum lekandabakteríum.

Embætti landlæknis



Fleiri fréttir

Sjá meira


×