Fótbolti

Heiða Ragney: Erum mjög spenntar að ná í bikar í sumar

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Heiða Ragney í baráttu í vor, þegar það var ennþá snjór!
Heiða Ragney í baráttu í vor, þegar það var ennþá snjór! Vísir/Vilhelm

Heiða Ragney Viðarsdóttir lagði upp mark Stjörnunnar í 1-0 sigri á Keflavík í 8-liða úrslitum Mjólkurbikarsins. Markið skoraði Jasmín Erla Ingadóttir á 27. mínútu leiksins

„Ég var bara komin þarna á hægri kantinn og ákvað bara að flengja honum inn í, Jasmín var komin á réttan stað og nær að flikka honum inn.“

Eftir fjörugar fyrstu mínútur lokaðist leikurinn töluvert þegar Stjarnan tók forystuna

„Þetta var svolítill baráttuleikur, við vissum það alveg fyrirfram, grasið er ekkert frábært þannig að við erum mjög sáttar að hafa náð inn marki og unnið leikinn.“

Stjarnan mun taka á móti Breiðablik í undanúrslitum. Heiða segist spennt fyrir þeirri viðureign.

„Við vildum það, það var leikurinn sem við vildum eftir seinasta leik, þannig að það verður eldur í okkur í næsta leik en þetta verður spennandi og auðvitað erfiður leikur.“

Stigasöfnun Stjörnunnar hefur ekki verið eins góð og þær hefðu vonast til, liðið situr í 6. sæti deildarinnar með 11 stig eftir átta umferðir, en eru í kjörstöðu til að lyfta Mjólkurbikarnum.

„Við ætlum ekkert að útiloka hitt en þetta lítur ekki nógu vel út fyrir okkur í deildinni akkúrat núna. Þannig að þetta er hvati, við erum mjög spenntar fyrir þessu eins og sást í dag, við ætluðum okkur áfram og erum mjög spenntar að ná í bikar í sumar.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×