Lífið

Telur sig eiga stærsta buffsafnið á Ís­landi

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Guðni segist hlakka til að taka á móti gestum á Bessastöðum á sunnudag. 
Guðni segist hlakka til að taka á móti gestum á Bessastöðum á sunnudag.  Vísir/Vilhelm

Guðni Th. Jóhannes­son for­seti Ís­lands segist eiga stærsta buffsafn Ís­lands, svo mörg hefur hann fengið í gjöf síðast­liðin ár. For­setinn mætti í Bítið á Bylgjunni í morgun í til­efni af því að hann hyggst bjóða almenningi í heimsókn á Bessastaði á sunnudag milli 13 og 16. Hlusta má á við­talið neðar í fréttinni.

Buff hefur lengi verið eitt af ein­kennis­merkjum for­setans en það vakti lands­at­hygli þegar hann deildi mynd af sér með buff á höfði við af­hjúpun á upp­lýsinga­skilti á Bessa­stöðum í nóvember 2016. Lík­lega var hann þar fyrsti for­setinn til að gegna em­bættis­verki með slíkt höfuð­fat.

„Það voru engir pítsu­staðir þegar Sveinn Björns­son var for­seti,“ sagði for­setinn léttur í bragði í Bítinu á Bylgjunni í morgun spurður hvort hann væri al­þýð­legri for­seti en aðrir sem á undan honum komu.

Hann og Eliza Reid for­seta­frú hafi mætt með barna­skara á Bessa­staði. Spurður að því hvernig börnunum hafi líkað veran á Bessa­staði segir Guðni að hann telji að þeim líki á­gæt­lega vel við sig.

Guðni með einkennisklæðnað sinn á sér, buffið góða í Reykjavíkurmaraþoninu árið 2018. Vísir/Vilhelm

Guðni segir alltaf vel mætt á Bessa­staði þegar forseti býður almenningi í heimsókn líkt og næstkomandi sunnudag. Hann verður til staðar til þess að taka á móti gestum en Eliza verður er­lendis til þess að vera við­stödd heims­leika Special Olympics.

„Það verður hægt að ganga um húsa­kynnin, fara inn í sal og inn í bók­hlöðu, niður fyrir þau sem hafa á því tök að fara niður í forn­leifa­kjallara og svo eru gjafir sem má sjá uppi á lofti frá Reagan og Gor­bachev og Nixon og fleirum.“

Spurður út í gjafir til for­seta Ís­lands segir Guðni að þær séu opin­ber eign em­bættisins en ekki for­setans per­sónu­lega, nema þær séu minni­háttar.

„Buff. Ég fæ að eiga öll mín buff. Ég held að ég eigi stærsta buffsafn á Ís­landi. Nú eða ef gjöfin er þess eðlis að það má neyta henni þar og þá í föstu formi eða fljótandi en aðrar gjafir þær eru eign em­bættisins.“

Frétt uppfærð kl. 12:55.

Í upphaflegri útgáfu fréttar kom fram að forseti byði almenningi í heimsókn á morgun 17. júní. Rétt er að boðið er á sunnudag á milli 13 og 16.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×