Innlent

Heildar­neysla ferða­manna jókst um 80 prósent milli ára

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Ferðamenn á Þingvöllum.
Ferðamenn á Þingvöllum. Vísir/Vilhelm

Hlutur ferðaþjónustu í landsframleiðslu nam 7,8 prósent í fyrra samkvæmt bráðabirgðaniðurstöðum. Hlutfallið var 4,8 prósent árið 2021 en 8,2 prósent árin 2016 til 2019.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Hagstofunni.

Þar segir að áætlað sé að 8,3 prósent vinnustunda árið 2022 hafi tengst beint framleiðslu á vöru eða þjónustu til endanlegra nota fyrir ferðamenn. „Til samanburðar var þetta hlutfall 6,3% árið 2021 en 9,6% að meðaltali á árunum 2016-2019,“ segir í tilkynningunni.

Áætlað er að um 18 þúsund eintaklingar hafi starfað við ferðaþjónustu hér á landi árið 2022, sem jafngildir 37,5 prósent aukningu frá árinu 2021.

„Heildarneysla ferðamanna, innlendra og erlendra, hér á landi nam 647 milljörðum króna árið 2022 og jókst um 80% borið saman við árið 2021. Heildarneysla ferðamanna er því í sögulegum hæðum, en fyrir kórónuveirufaraldurinn nam hún mest 572 milljörðum árið 2018. Hafa ber í huga að upphæðir eru á verðlagi hvers árs og gætir því einhverra áhrifa verðbólgu, en hún nam að meðaltali 8,3% árið 2022,“ segir í tilkynningunni.

Útgjöld innlendra ferðamanna námu 38 prósent af heildarútgjöldum ferðamanna árið 2022, samanborið við 43 prósent árið 2021, 48 prósent árið 2020 og 27 prósent árið 2019.

„Útgjöld erlendra ferðamanna hér á landi námu rúmlega 390 milljörðum króna árið 2022 og jukust um 107% borið saman við árið 2021 en voru á pari við útgjöld þeirra hér á landi árin 2018 og 2019. Útgjöld erlendra ferðamanna námu rúmlega 60% af heildarútgjöldum ferðamanna árið 2022. Gistiþjónusta vegur þyngst í útgjöldum erlendra ferðamanna en gistinóttum þeirra fjölgaði um 96% frá fyrra ári.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×