Fótbolti

Maður sem hljóp inn á völlinn kom í veg fyrir sæti í efstu deild

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Lucas Buades lenti illa í því þegar stuðningsmaður Bordeaux hljóp inn á völlinn.
Lucas Buades lenti illa í því þegar stuðningsmaður Bordeaux hljóp inn á völlinn. Vísir/Getty

Franska knattspyrnuliðið Bordeaux missir af sæti í efstu deild eftir að stuðningsmaður liðsins hljóp inn á völlinn og hrinti markaskorara andstæðinga þeirra.

Bordeaux tók á móti Rodez í lokaumferð frönsku B-deildarinnar þann 2. júní síðastliðinn. Bordeaux var í harðri baráttu við Metz um 2. sæti deildarinnar sem gefur sæti í efstu deild. Liðið þurfti að ná betri úrslitum úr leik sínum gegn Rodez en Metz gegn SC Bastia til að tryggja sér sæti í efstu deild.

Á sama tíma þurfti Rodez á sigri að halda til að tryggja áframhaldandi veru í B-deildinni.

Það voru gestirnir í Rodez sem tóku forystuna þegar Lucas Buades kom boltanum í netið á 22. mínútu leiksins. Eins og gefur að skilja tóku stuðningsmenn Bordeaux ekki sérlega vel í það og einhverjir virðast hafa gengið of langt í reiði sinni.

Einn stuðningsmanna Bordeaux hljóp inn á völlinn og hrinti markasoraranum til jarðar. Buades var í kjölfarið borinn af velli á sjúkrabörum og dómari leiksins flautaði leikinn af og bar fyrir sig að leikmaðurinn hafi fengið heilahristing við árásina.

Franska knattspyrnusambandið hefur nú ákveðið að dæma Rodez 1-0 sigur í leiknum og liðið heldur því sæti sínu í B-deildinni á kostnað FC Annecy sem fellur í C-deildina. Það sem meira er, Bordeaux missir af sæti í frönsku úrvalsdeildinni og stig verður dregið af þeim fyrir næsta tímabil. Þá þarf félagið einnig að loka hluta stúkunnar á velli sínum í næstu fjórum leikjum.

Forráðamenn Bordeaux hafa þó sagst ætla að áfrýja ákvörðuninni til frönsku Ólympíunefndarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×