Eftir að PSG varð franskur meistari um þarsíðustu helgi fengu leikmenn liðsins dags frí. Rico nýtti það til að fara á hestbak á Spáni. Hann datt hins vegar af baki, fékk þungt höfuðhögg og var fluttur á gjörgæsludeild sjúkrahúss í nágrenni Sevilla.
Rico var í dái en hefur verið vakinn úr því. Hann er með meðvitund en ástand hans er enn tvísýnt. Eiginkona Ricos, Alba Silva, er samt vongóð.
„Hann er að lagast hægt og rólega. Við treystum læknunum fullkomlega,“ skrifaði Silva á samfélagsmiðla.
Rico, sem er 29 ára, gekk í raðir PSG frá Sevilla fyrir þremur árum. Hann hefur einnig leikið með Fulham og Mallorca.