Hólmgeir Elías Flosason, lögmaður konu sem var ákærð fyrir umsáturseinelti gagnvart Örnu McClure, segir Héraðsdóm Norðurlands eystra hafa staðið í fæturna og komist að því augljósa í dómi sem féll um miðjan maí.
Vísir greindi frá dóminum fyrr í kvöld. Fyrrverandi eiginkona Páls Steingrímssonar, skipstjóra Samherja, var sýknuð í öllum kæruliðum.
En hún var meðal annars sökuð um að hafa hringt í Örnu og sakað hana um framhjáhald með Páli, hringt dyrasíma á heimili Örnu en ekki gert vart við sig þegar svarað var og að hafa sett útprentaðar fjölmiðlaumfjallanir um samskipti Örnu og fleiri við Pál í póstkassa hjá fólki tengdu Örnu.
Var konan sökuð um að hafa brotið 232. grein hegningarlaga, lið a, sem fjallar um umsáturseinelti.
Dapurt mál í alla staði
„Ákvæði 232. gr. a. almennra hegningarlaga um umsáturseinelti er ekki ætlað að vernda fólk fyrir einhverju sem er leiðinlegt og óþægilegt, óháð því hver á í hlut,“ segir Hólmgeir Elías á Facebook síðu sinni í kvöld. Beinir hann spjótum sínum að Páleyju Bergþórsdóttur, lögreglustjóra á Norðurlandi eystra.
„Einstaklega dapurt mál í alla staði, en ég efa það að samskonar ákæra hefði litið dagsins ljós hjá lögreglustjórum annars staðar á landinu,“ segir Hólmgeir Elías.