Innlent

Katrín fundaði með for­mönnum um yfir­vofandi launa­hækkanir

Atli Ísleifsson skrifar
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. Vísir/Vilhelm

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra fundaði í morgun með formönnum flokka á þingi þar sem yfirvofandi launahækkanir æðstu ráðamanna voru til umræðu.

Þetta herma heimildir fréttastofu. Launahækkanir æðstu ráðmanna munu að óbreyttu taka gildi 1. júlí næstkomandi og nema þær allt frá 6 til 6,3 prósentum.

Fulltrúar verkalýðshreyfingarinnar hafa gagnrýnt fyrirhugaða hækkun harðlega og hafa talað fyrir því að laun ráðamanna hækki um krónutölu líkt og samið var um á almennum markaði. Þannig hafi verið bent á að ekkert þak sé á launahækkuninni líkt og samið var um hjá öðrum í haust þegar laun hækkuðu almennt ekki meira en um 66 þúsund krónur.

Launahækkunin nemur 6 til 6,3 prósent samkvæmt fyrirkomulagi sem komið var á í kjölfar þess að umdeilt kjararáð var lagt niður árið 2019. Laun forsætisráðherra munu þannig hækka um 156 þúsund krónur, aðrir ráðherra fá um 141 þúsund króna hækkun og seðlabankastjóri um 130 þúsund króna hækkun.

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði fyrir helgi að til greina kæmi að víkja frá fyrirhuguðum launahækkunum með einhverjum hætti. Sagði hann að á Alþingi væri ágætis samhljómur um að hækkun launa myndi taka breytingum með hliðsjón af samningum hjá opinberum starfsmönnum. Þá sagði hann að erfitt væri að sjá fyrir sér fyrirkomulag sem nokkur sátt gæti verið um fyrir laun æðstu embættismanna ríkisins.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, ræddi við fréttamann að loknum fundi. Hún vildi þó lítið gefa uppi um það sem kom fram á fundinum.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×