Innlent

Verk­ferlar í Reykja­dal hafi verið bættir strax í haust

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Andrea Rói Sigurbjörns er forstöðumaður Reykjadals.
Andrea Rói Sigurbjörns er forstöðumaður Reykjadals. Aðsend

Verfkerlar í Reykjadal, sumarbúðum fyrir fötluð börn, hafa verið uppfærðir og þeir lagfærðir, eftir að stúlka sem dvaldi þar síðasta sumar sagði þroskaskertan starfsmann hafa beitt hana kynferðisofbeldi. Forstöðumaður segir athugasemdir við viðbrögðum teknar alvarlega.

Málið kom upp síðasta sumar, þegar fötluð stúlka, sem var gestur í Reykjadal, greindi frá því á heimferðardegi að þroskaskertur starfsmaður sumarbúðanna hefði brotið á henni með því að snerta einkastaði hennar.

Í skýrslu Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála segir að viðbrögð starfsmanna hafi verið ómarkviss, ámælisverð og alvarleg. Foreldrar stúlkunnar hafa fagnað skýrslunni og segja hana staðfesta það sem þeir hafi sagt um málið frá upphafi.

Forstöðumaður Reykjadals segir að búið sé að uppfæra verkferla til að koma í veg fyrir slík mál í framtíðinni.

„Við erum bara ótrúlega þakklát að Gæða- og eftirlitsstofnun hafi tekið þessi svona alvarlega, eins og við gerum líka. Við höfum fundað með stofnuninni og tökum öllum ábendingum þeirra mjög alvarlega,“ segir Andrea Rói Sigurbjörns, forstöðumaður Reykjadals. 

Litið hafi verið til athugasemda vegna mönnunar og teknir upp strax í haust. Þá hafi starfsfólk fengið víðtæka fræðslu um hvernig fyrirbyggja eigi mál sem þetta og hvernig bregðast beri við ef þau koma upp. Fyrsta skrefið þegar upp komi grunur um kynferðisofbeldi sé að hringja í strax lögregluna, sem var ekki gert samkvæmt skýrslu gæða- og eftirlitsstofnunar.

Boðar bætt vinnubrögð

Andrea segir viðbrögð starfsmanna hafa verið í samræmi við þá verkferla sem voru í gildi, sem þó hafi ekki verið nógu góðir.

„Því miður var þetta það eina sem við vissum og þær upplýsingar sem við höfðum á þessum tíma. Núna vitum við betur og ætlum að gera betur í framtíðinni með því að styðjast við nýju verkferlana okkar.“

Stjórnendur ætli sér ekki að véfengja það sem foreldrar hafi sagt um málið.

„Við erum sumarbúðir og okkur langar bara ótrúlega að vera til staðar fyrir gestina okkar og fjölskyldur þeirra og komum bara vel undirbúin í sumarið.“


Tengdar fréttirAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.