Innlent

Renni­brautirnar á Akur­eyri lokaðar: „Auð­vitað snúa ein­hverjir svekktir frá“

Atli Ísleifsson skrifar
Sundlaug Akureyrar er ein vinsælasta sundlaug landsins, ekki síst vegna rennibrautanna.
Sundlaug Akureyrar er ein vinsælasta sundlaug landsins, ekki síst vegna rennibrautanna. Akureyrarbær

Stóru rennibrautunum í Sundlaug Akureyrar, Trektinni og Flækjunni, var lokað síðastliðinn þriðjudag vegna viðhaldsframkvæmda og er reiknað með að framkvæmdir standi í tvær vikur.

„Auðvitað vilja allir hafa opið en það er eins með þetta mannvirki og önnur. Það þarf að halda því við,“ segir Elín H. Gísladóttir, forstöðumaður Sundlaugar Akureyrar, í samtali við fréttastofu.

Sundlaug Akureyrar nýtur mikilla vinsælda, sérstaklega hjá ungu kynslóðinni vegna rennibrautanna sem vígðar voru sumarið 2017. Er laugin jafnan fastur viðkomustaður fyrir fjölskyldufólk á ferð um Norðurland, en Flækjan er lengsta rennibraut á Íslandi, alls 86 metrar að lengd.

Elín segist ekki hafa fengið margar tilkynningar frá starfsfólki vegna viðskiptavina sem hafi verið svekktir við komuna í laugina vegna lokaðra rennibrauta. „Auðvitað snúa einhverjir svekktir frá en það var einfaldlega kominn tími á viðhald,“ segir Elín.

Elín segir að tveir starfsmenn frá framleiðslufyrirtæki rennibrautanna hafi hafist handa við viðhald á brautunum á þriðjudaginn. 

„Þetta eru langir vinnudagar hjá þeim. Það er verið að laga yfirborðið inni í rennibrautunum sem var orðið slitið og við hlökkum að sjálfsögðu til að hægt verði að opna þær á ný enda ferðamannasumarið að fara á fullt,“ segir Elín.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×