Fótbolti

Beckham rak gamla liðsfélagann

Smári Jökull Jónsson skrifar
Phil Neville er ekki lengur knattspyrnustjóri Inter Miami.
Phil Neville er ekki lengur knattspyrnustjóri Inter Miami. Vísir/Getty

Phil Neville hefur verið sagt upp störfum sem knattspyrnustjóra Inter Miami eftir skelfilegt gengi liðsins að undanförnu. Liðið hefur tapað tíu af fimmtán leikjum sínum á tímabilinu.

Phil Neville var ráðinn sem þjálfari Inter Miami í janúar 2021 en David Beckham, fyrrum liðsfélagi hans hjá Manchester United, er eigandi Inter Miami. Neville og Beckham eru sömuleiðis eigendur enska liðsins Salford City ásamt Gary Neville, Paul Scholes, Nicky Butt og Ryan Giggs sem allir eru fyrrum leikmenn United.

Eftir skelfilegt gengi liðs Inter Miami að undanförnu hefur Beckham nú rifið í gikkinn og rekið gamla liðsfélaga sinn Neville. Inter Miami hefur tapað fjórum leikjum í röð í MLS-deildinni og tíu af fyrstu fimmtán leikjunum í deildinni á tímabilinu. Liðið er í neðsta sæti Austurdeildarinnar.

Á sínu fyrsta tímabili sem knattspyrnustjóri liðsins endaði liðið í ellefta sæti af fjórtán liðum Austurdeildar en komst í úrslitakeppnina á síðasta tímabili þar sem það féll úr leik í fyrstu umferð eftir 3-0 tap gegn New York City FC.

Neville framlengdi samning sinn við Inter Miami í nóvember en hefur nú verið sagt upp störfum.

Eftir 1-0 tap liðsins gegn New York Red Bulls fóru af stað sögusagnir um að starf Neville væri í hættu en það var meðal annars baulað á son hans Harvey þegar hann kom inn sem varamaður í leiknum.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.