Fótbolti

„Tók meira leið­toga­hlut­verk og naut mín mjög vel“

Sindri Sverrisson skrifar
Glódís Perla Viggósdóttir með meistaraskjöldinn í fagnaðarlátum Bayern á sunnudaginn.
Glódís Perla Viggósdóttir með meistaraskjöldinn í fagnaðarlátum Bayern á sunnudaginn. Getty/Mark Wieland

Glódís Perla Viggósdóttir, landsliðsfyrirliði í fótbolta, lék hverja einustu mínútu á nýafstaðinni leiktíð, þegar Bayern München varð Þýskalandsmeistari í fimmta sinn. Hún segir hlutverk sitt sem leiðtogi hjá Bayern hafa stækkað.

Glódís var að ljúka sinni annarri leiktíð hjá Bayern eftir að hafa komið frá Rosengård í sænsku úrvalsdeildinni. Í fyrra tók norski þjálfarinn Alexander Straus við og segir Glódís að það hafi hjálpað sér að blómstra enn frekar hjá einu allra besta liði heims.

„Ég er ótrúlega stolt og það er gaman að fá svona mikið traust, og geta látið mína eiginleika skína meira en ég gat gert í fyrra. Þessi hugsun [nýja þjálfarans] og skandinavíski boltinn er eitthvað sem að ég er vön, svo ég gat hjálpað liðinu mikið. Ég er því ótrúlega stolt af þessu tímabili og það er gaman hvað okkur gekk vel sem liði. Það er alltaf það mikilvægasta,“ segir Glódís í viðtali við Svövu Kristínu Gretarsdóttur.

Klippa: Glódís orðin meiri leiðtogi hjá Bayern

„Ég tók svolítið meira leiðtogahlutverk og naut mín mjög vel í því. Þegar nýjar áherslur fóru að smella hjá liðinu, og allt liðið fór að leggja meira upp úr varnarleik þá hentaði það mér mjög vel, og einhvern veginn náðum við að samstilla okkur mjög vel. Þá er auðvelt að hafa áhrif á alla í kringum sig – draga það besta út úr öðrum og sjálfri mér líka.

Á síðustu leiktíð spilaði ég svo sem allar mínútur eftir jól en naut mín kannski ekki eins vel og ég hef gert undir stjórn þessa nýja þjálfara,“ segir Glódís.

Verandi hjá Bayern getur Glódís í raun varla tekið skref upp á við, í stærra félag og betra lið, en ljóst er að hún er í sigti fleiri félaga.

Mikill uppgangur í Þýskalandi og Englandi

Greint var frá því á mbl.is að Glódís væri á óskalista Arsenal en hún kveðst samningsbundin Bayern og ekki með annað í huga en að halda áfram hjá félaginu. Hún tekur þó undir að enska úrvalsdeildin sé spennandi kostur:

„Það er mjög mikill uppgangur í ensku deildinni, sérstaklega eftir EM í fyrra, og mikill peningur og metnaður lagður í hana. Það er því klárlega spennandi deild en á sama tíma er þýska deildin einnig á ákveðinni uppleið, með meiri peningum, áhorfendum og áhuga. Það er gríðarlegur munur á áhorfendatölum. Kvennaboltinn alls staðar í heiminum er á mikilli uppleið og Englendingarnir eru rosalega góðir í að markaðssetja sig, svo sú deild er áberandi.

Það eru mjög spennandi ár fram undan í kvennaboltanum, hjá öllum þessum stóru félögum sem eru að leggja pening og áhuga í kvennaliðin sín,“ segir Glódís.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×