Erlent

Neyddist til að láta soninn fjúka í kjöl­far hneykslis­máls

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Sonur Kishida hefur valdið honum nokkrum vandræðum.
Sonur Kishida hefur valdið honum nokkrum vandræðum. AP/Kimimasa Mayama

Fumio Kishida, forsætisráðherra Japan, hefur neyðst til að láta son sinn fjúka eftir að myndir fóru í dreifingu á samfélagsmiðlum þar sem sonurinn og aðrir ættingjar sjást fíflast í forsætisráðherrabústaðnum.

Myndirnar eru sagðar hafa verið teknar í samkomu, þar sem viðstaddir stilltu sér upp á tröppum sem notaðar eru fyrir formlegar myndatökur og við ræðupúlt í sal þar sem blaðamannafundir fara fram.

Shotaro, sonur Kishida, starfaði sem ráðgjafi föður síns frá 2020. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem hann er gagnrýndur fyrir að misnota aðstöðu sína en í janúar komst upp að hann hefði notað bifreiðar japanska sendiráðsins í Lundúnum og París í útsýnis- og verslunarferðir.

Kishida sagðist axla fulla ábyrgð á hneykslinu og að aðstoðarmaður forsætisráðherrans til langs tíma, Takayoshi Yamamoto, myndi taka við af hinum 32 ára Shotaro.

Kishida sagðist hafa heilsað samkomugestum en að hann hefði ekki verið viðstaddur um kvöldið, þegar myndirnar voru teknar.

Málið þykir afar óheppilegt fyrir Kishida, sem hefur notið vaxandi hylli eftir fund G7-ríkjanna í Hiroshima á dögunum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×