Innlent

Sami hópur segist hafa tekið niður vef­síðu Isavia

Kjartan Kjartansson skrifar
NoName057(16), rússneskur tölvuþrjótahópur, eignaði sér heiður af árásinni á Isavia í morgun.
NoName057(16), rússneskur tölvuþrjótahópur, eignaði sér heiður af árásinni á Isavia í morgun. Skjáskot

Álagsárás var gerð á vefsíðu Isavia sem lág niður í um tvær klukkustundir í morgun. Rússneskur tölvuþrjótahópur sem stóð að árásum á opinbera vefi í gær lýsti yfir ábyrgð á árásinni á Isavia.

Vefsíðan sem birtir upplýsingar um flugferðir fyrir alla íslenska áætlunarflugvelli lá niðri eftir árásina í morgun, að því er kemur fram í tilkynningu frá Isavia. Tæknimönnum tókst að hrinda árásinni og koma síðunni aftur í loftið. Einhverjir notendur eru þó sagður geta átt í erfiðleikum áfram með að tengjast síðunni.

Tölvuþrjótahópurinn NoName057(16) virtist eigna sér ábyrgð á DDos-árásinni þegar hann birti mynd af villuskilaboðum á vefsíðu Isavia í morgun. Sá hópur er talinn tengdur rússnesku leyniþjónustunni og hefur gert margar sambærilegar árásir á stofnanir og fyrirtæki í Evrópu að undanförnu. Meðlimir hópsins tala opinberlega um það á samfélagsmiðlum að árásir þeirra séu til stuðnings stríðsreksturs Rússa í Úkraínu.

Isavia segir að þegar árásin var gerð í morgun hafi varasíða með aðgengi að flugupplýsingum um Keflavíkurflugvöll verið opnuð og vísað á hana á samfélagsmiðlum félagsins. Einnig hafi verið hægt að nálgast upplýsingar um innanlandsflug á vef Textavarpsins og flugfélaganna. Samfélagsmiðlar innanlandsflugvalla hafi vísað notendum þangað.

Alþingi og dómstólavefir voru á milli þeirra sem tölvuþrjótarnir réðust á í tengslum við leiðtogafund Evrópuráðsins í gær. Netöryggissveit stjórnvalda varaði við því að búast mætti við áframhaldandi árásum.

Álagsárásir eða DDos-árásir eru tegund af tölvuárás þar sem framköllluð er stóraukin umferð um vefsíðu til þess að láta hana hrynja undan álagi.


Tengdar fréttir

Lík­legt að á­rásirnar haldi á­fram

Óvissustig Almannavarna var virkjað í dag vegna netárása Rússa í tengslum við fund Evrópuráðsins. Sérfræðingur í netöryggi segir Íslendinga mega eiga von á fleiri árásum og að almenningur þurfi einnig að hafa varan á. 

Tölv­u­þrjót­arn­ir kall­a Vest­ur­lönd nas­ist­a

Tölvuþrjótahópurinn NoName057(16) hefur lýst yfir ábyrgð á netárásum á íslenska vefi í dag að því fram kemur í tilkynningu frá CERT-IS, í henni er NoName057(16) kallaður ógnarhópur. Hópurinn er hliðhollur Rússlandi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×