Innlent

Sér­stakur skíða­vetur en þróunin upp á við

Máni Snær Þorláksson skrifar
Magnús Árnason, framkvæmdastjóri skíðasvæða höfuðborgarsvæðisins, segir skíðaveturinn hafa verið sérstakan.
Magnús Árnason, framkvæmdastjóri skíðasvæða höfuðborgarsvæðisins, segir skíðaveturinn hafa verið sérstakan. Vísir/Steingrímur Dúi

Framkvæmdastjóri skíðasvæðanna á höfuðborgarsvæðinu segir síðasta vetur hafa verið sérstakan fyrir skíðasvæðin. Lítill snjór hafi komið í Bláfjöll og ekki tókst að vígja formlega nýju lyfturnar á svæðinu.

Magnús Árnason, framkvæmdastjóri skíðasvæðanna á höfuðborgarsvæðinu, segir síðastliðinn vetur hafa verið sérstakan að því leyti til að það kom ekki mikill snjór í Bláfjöll. „Við náðum til dæmis aldrei að formlega vígja nýju lyfturnar okkar, Gosann og Drottninguna,“ segir hann.

„Vegna þess að við ætluðum að reyna að keyra þær báðar á þeim degi sem þær yrðu vígðar. Það bara gafst ekki, við vorum með aðra hvora opna á víxl. Það var gríðarlega lítill snjór, þetta byggðist allt á þremur snjókomum, veturinn í vetur. Sem var alveg öfugt miðað við veturinn í fyrra, þá var brjálæðislega mikil snjókoma en hundleiðinlegt veður. Það er svo erfitt að segja hverju við bjuggumst við en þetta voru færri opnunardagar heldur en við gerðum ráð fyrir.“

Nýju lyfturnar verða því teknar formlega í notkun á næsta ári. Þrátt fyrir að síðasti vetur hafi verið sérstakur segir Magnús að honum finnist þróunin alltaf vera upp á við.

„Það er alltaf þróun finnst mér upp á við, alltaf að bæta í. Fólk er að byrja mjög snemma, um leið og við erum tilbúin þá er mikill þungi hérna. Svo „fadear“ þetta nú aðeins út yfirleitt yfir veturinn en tekur syrpu um páskana. Ég held að fólk ætti bara vonandi að nýta veturinn allan á næstu árum en ekki bara í upphafi.“

Þá bendir Magnús á að í sumar verði farið í að setja upp snjóframleiðsluvél í Bláfjöllum.


Tengdar fréttir

Óvænt eftirspurn eftir stólunum sem ruku út

Gríðarleg eftirspurn er eftir stólum úr skíðalyftunni gömlu sem þurfti að víkja fyrir nýju Drottningunni í Bláfjöllum. Framkvæmdastjóri skíðasvæða höfuðborgarsvæðisins segir eftirspurnina hafa komið starfsfólki á óvart en hann grunar að fólk ætli að nýta stólana meðal annars sem garðhúsgagn.

Framkvæmdir í Bláfjöllum komnar á fullt

Framkvæmdir við tvær nýjar stólalyftur í Bláfjöllum eru komar á fullt. Reiknað er með að önnur þeirra verði kominn í gagnið á næstu skíðavertíð.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×