Drottningin svokallaða var reist í Bláfjöllum árið 1978 og jókst þá flutningsgeta í fjallinu til muna. Eftir 44 ára þjónustu var drottningin þó leyst af hólmi í vetur - af nýrri skíðalyftu sem einnig nefnist drottningin.
„Gamla drottningin, við erum að taka hana niður núna eftir 44 ár, sett upp '78 og var þá náttúrulega bara veruleg búbót fyrir skíðafólk á sínum tíma. Þetta var fyrsta stólalyftan á suðvesturhorninu en önnur lyftan á landinu. Hún hefur lifað með fólki, ansi mörgum í gegnum tíðina.“
Þrátt fyrir að ein elsta stólalyfta Íslands sé búin að ljúka hlutverki sínu í Bláfjöllum þá koma stólarnir úr lyftunni til með að þjóna nýju hlutverki. Ákveðið var að selja stólana á 10 þúsund krónur og létu viðbrögðin ekki á sér standa, þrátt fyrir efasemdir sumra starfsmanna á svæðinu um áhuga fólks á stólunum.
„Já okkur datt í hug að bjóða þá til sölu og bjuggumst kannski við að selja örfáa stóla, það voru svona mismunandi skoðanir um það á vinnustaðnum en ég er að taka þetta saman, mér sýnist þetta vera meira og minna uppselt. Miklu fleiri sem vilja fjárfesta í sögunni heldur en við bjuggumst við.“

Magnús segir að búið sé að panta alla stólana og að fólk sé meira að segja komið á biðlista. Hann telur að fólk ætli sér að nýta stólana en að það sé þó ekki aðalástæðan fyrir eftirspurninni:
„Mig grunar að þetta sé bara að fara í garðinn eða utan á húsin, sumarhúsin, eitthvað svoleiðis. Ég held það sé aðallega verið að fjárfesta í sögunni eins og ég segi, það eru svo margir bara búnir að alast upp með þessari lyftu hérna á suðvesturhorninu, allavega skíða- og brettafólk.“