Fótbolti

Kristall Máni og Ísak Snær máttu sætta sig við tap

Smári Jökull Jónsson skrifar
Kristall Máni Ingason í leik með U21-landsliðinu gegn Kýpur í fyrra þar sem hann skoraði tvö mörk.
Kristall Máni Ingason í leik með U21-landsliðinu gegn Kýpur í fyrra þar sem hann skoraði tvö mörk. VÍSIR/HULDA MARGRÉT

Kristall Máni Ingason og Ísak Snær Þorvaldsson máttu sætta sig við tap í norsku deildinni í knattspyrnu í kvöld þegar lið þeirra Rosenborg beið lægri hlut gegn Brann.

Kristall Máni og Ísak Snær gengu báðir til liðs við Rosenborg á síðasta ári en norska stórliðið hafnaði í þriðja sæti norsku deildarinnar á síðasta tímabili og varð síðast meistari árið 2018.

Kristall Máni byrjaði í fremstu víglínu Rosenborg í kvöld en Ísak Máni á bekknum. Gestirnir frá Bergen komust í 1-0 á 15. mínútu þegar Sivert Nilsen skoraði og staðan í hálfleik var 1-0.

Á 78. mínútu skoraði Bard Finne annað mark Brann og tryggði þeim góðan útisigur. Kristall Máni var tekinn af velli á 68. mínútu leiksins en Ísak Snær kom inn af bekknum á 75. mínútu. Rosenborg er um miðja deild með sex stig eftir fimm umferðir.

Í norsku B-deildinni mættust Íslendingaliðin Kristiansund og Sogndal. Brynjólfur Andersen var ekki í leikmannahópi Kristiansund en þeir Jónatan Ingi Jónsson og Valdimar Ingimundarson voru báðir í byrjunarliði Sogndal.

Það voru heimamenn í Kristiansund sem höfðu betur og unnu góðan 2-1 sigur. Jónatan Ingi lagði upp mark Sogndal þegar liðið jafnaði metin í 1-1 í síðari hálfleiknum en Kristiansund tryggði sér sigur með marki undir lokin.

Þá kom Júlíus Magnússon inn af bekknum hjá Fredrikstad þegar liðið gerði 0-0 jafntefli gegn Bryne á útivelli. Júlíus kom inn á 66. mínútu en hann gekk til liðs við Fredrikstad frá Víkingum í vetur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×