Lífið

Gor­don Light­foot er fallinn frá

Atli Ísleifsson skrifar
Gordon Lightfoot á tónleikum í Ottawa árið 2017.
Gordon Lightfoot á tónleikum í Ottawa árið 2017. Getty

Kanadíski þjóðlagasöngvarinn Gordon Lightfoot er látinn, 84 ára að aldri.

Þetta staðfestir talsmaður söngvarans í samtali við CBC.

Lightfoot gaf út sitt fyrsta lag árið 1955 þegar hann var í framhaldsskóla og flutti í kjölfarið til Los Angeles. Hann sneri þó aftur heim til Kanada árið 1959. Á sjöunda áratugnum gerði hann sig gildandi í þjóðlagasenu Toronto-borgar og gaf svo út sína fyrstu plötu árið 1959.

Lightfoot sló svo í gegn á heimsvísu á áttunda áratugnum eftir að hann gerði plötusamning við Warner Bros í Bandaríkjunum árið 1970. Hann gaf í kjölfarið út marga af sínum stærstu smellum, meðal annars If You Could Read My Mind, Sundown, The Wreck of Edmund Fitzgerald og Carefree Highway.

Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, minnist Lightfoot í morgun og segir Kanada hafa misst einn af sínum stærstu söngvurum og lagahöfundum.

Lightfoot gaf út plötuna Solo árið 2020, sem varð hans síðasta. Hann hugði þá á tónleikaferðalag en því var aflýst vegna heimsfaraldursins.

Aðrir listamenn hafa margir flutt ábreiður af lögum Lightfoot. Má þar nefna að stjörnur á borð við Elvis Presley, Bob Dylan og Paul Weller hafa allir flutt sína útgáfu af lagi Lightfoot, Early Morning Rain.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×